154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við erum í vinnu við fjármálaáætlun sem verður lögð fram á þinginu þegar fram líða stundir og margt af því sem hv. þingmaður nefnir verður auðvitað til umræðu þar og ákvarðanir teknar. Þar munu birtast m.a. áherslur og nálgun sem hv. þingmaður spyr um en það þarf auðvitað að fara sína leið í þriggja flokka samstarfi.

Hv. þingmaður fullyrðir hér að þjónusta í heilbrigðiskerfinu hafi ekki batnað. Ég er í fyrsta lagi ekki sammála því. Segjum sem svo að það væri þannig að þjónusta í heilbrigðiskerfinu hafi ekki batnað, þá hefur það ekki verið vegna þess að við höfum verið að skera þar niður eða ekki að bæta í fjármagn. Það er þá ýmislegt annað sem þarf að koma til. Við erum með 3% aðhaldskröfu á Stjórnarráðið og svo hin almennu 2%. Ég hef áður nefnt í þessum stól að við erum með 164 stofnanir í þessu landi með tæplega 400.000 manns. Í því felst sóun, í því felst óþarfayfirbygging í allt of mörgum stofnunum og breytingar á því myndu ekki skerða þjónustu við fólk sem á þjónustunni þarf að halda. Við sitjum á mjög miklu magni fasteigna sem ég myndi vilja leggja mikla áherslu á að ríkið losaði sig einfaldlega undan. Við sitjum líka á þróunarreitum og þar er spurning: Er ríkisvaldið best til þess fallið að auka virði þeirra og selja þá svo eða eigum við að selja þá og láta aðra um það? Það getur verið mismunandi sýn á það.

Það hefur ekki heldur skort á útgjaldatillögur frá flokki hv. þingmanns sömuleiðis í því. (HKF: … ekki rétt.) Ég er ekki á þeirri skoðun (Forseti hringir.) að leiðin til þess að bæta ríkisreksturinn felist í frekari skattahækkunum enda greiðum við hér eina hæstu skatta innan OECD.