154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:26]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að vekja athygli á því að það er eilítið sérstakt að fólk í rauninni viðurkenni að það sé ekki innan heimilda þessa félags og mögulega ekki innan heimilda laganna að þetta sé í lagi vegna þess að þetta sé tímabundið ástand. Það er margt við þetta að athuga. Í fyrsta lagi væri hægt að gera hér breytingar innan húss þó að það séu ekki nema tímabundnar breytingar, bæði á heimildum Bríetar en líka á þessum umræddu lögum.

Í öðru lagi langar mig bara að vekja hæstv. ráðherra og þingheim til umhugsunar um þau orð sem hér eru látin falla um „þegar húsnæðisvandinn verður leystur“ vegna þess að hann verður ekki leystur hér eftir þrjú ár. Áður en húsnæðisvandi vegna Grindavíkur kom til var gríðarlegur húsnæðisvandi hér til staðar. Veruleikinn er sá að áður en Grindavík kom til þá var til að mynda mjög erfið staða á vinnumarkaði og er enn þá mjög erfið staða á vinnumarkaði í kjarasamningum þar sem sumir aðilar í verkalýðshreyfingunni, stéttarfélögin, hafa fengið þau skilaboð að mögulega þurfi kröfur þeirra að víkja vegna núverandi ástands. Gott og vel. Við þurfum öll að taka mið af ástandinu. En væri fólki þá ekki í lófa lagið að horfa kannski til lengri tíma og sjá hvort það væri hægt að stefna að því að eitthvað af þeim aðgerðum sem ráðist er í núna vegna húsnæðisvanda Grindvíkinga — sem eru þá væntanlega íbúðir sem fólk mun ekki búa í að eilífu, líkt og hæstv. ráðherra segir hér, íbúðir sem verða ekki nýttar þegar sá húsnæðisvandi verður leystur — að tækifærið verði nýtt til að byrja alvöruendurreisn á verkamannabústaðakerfinu sem var lagt niður á sínum tíma? Að nýta þá stöðu að ríkið hafi komið í eitt skipti inn á markaðinn og keypt tvisvar sinnum húsnæðiskost upp á 5 milljarða kr. með tilheyrandi áhrifum á markaðinn — og þið getið líka rétt ímyndað ykkur tilheyrandi áhrif á markaðinn þegar þetta er selt allt í einu — í staðinn fyrir að eiga bara þetta húsnæði eða koma því inn í félag sem hentar betur fyrir langtímahúsnæðismálin í landinu, því að þetta er líka krafa verkalýðshreyfingarinnar í dag. Væri ekki bara upplagt að slá tvær flugur í einu höggi hér og reyna að ganga þar í takt?