154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég myndi eiginlega vilja fá að árétta þennan punkt minn, að núna þegar öllum er að verða ljóst að við erum að horfa á stöðuna í Grindavík til lengri tíma, bara spurning hversu langan tíma, að þá verði að móta samtalið núna, að við séum jöfnum höndum að tala um húsnæðismarkað og atvinnulíf og atvinnu fólks, því að afkoma fólks er ekki síður öryggismál en húsnæði.

Hæstv. ráðherra nefnir súrefni, að þessu frumvarpi sé ætlað að vera það, og það er gott að heyra. Til að skapa von og öryggi og vissu um það þarf fyrr en seinna að heyrast skýrari taktur og skýrari tónn um það í hverju þessar aðgerðir felast. Er verið að hugsa hérna um einhverjar aðgerðir til lengri tíma litið, eitthvað í líkingu við það sem við sáum á tímum heimsfaraldurs eða er þetta eitthvað annað? Ég heyri að ráðherrann talar um að hann er að fara að hitta aðila en mér finnst ég greina það að við séum ansi stutt komin í þessu þannig að ég vildi aftur biðja ráðherrann um að greina ögn nánar frá því hvaða hugmyndir þetta eru og hvort hann telji að þetta frumvarp núna, til þess tíma sem það tekur, nái til allra þeirra sem eru aðstoðarinnar þurfi. Ég átta mig á því að ráðherra er ekki með fullsmíðað frumvarp hérna um aðrar aðgerðir, en hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu og er verið að hugsa um einhverjar aðgerðir sem við þekkjum frá tímum heimsfaraldurs eða er verið að smíða ný úrræði?