154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:02]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég ætla bara að leyfa mér að taka 100% undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni um þessi mál. Ég held að þetta sé eitthvað sem er um að gera að fara að byrja á strax. Ég hef það fyrir satt og veit fyrir víst að við Íslendingar getum lagt okkar af mörkum í ýmsum störfum tengdum þessum varnarmálum, til að mynda í netöryggismálum. Við erum þar leikendur sem getum virkilega lagt okkar af mörkum þar. Þegar kemur að varnar- og öryggismálum þá eru það ekki bara skriðdrekar og orrustuþotur og hermenn með vopn heldur þarf að inna af hendi fjöldamörg önnur störf og þar höfum við Íslendingar alveg ágæta þekkingu. Við búum á erfiðum og harðbýlum norðlægum slóðum og þekkjum vel til hafsvæðisins hér á Norður- Atlantshafi og vitum hvað þarf að hafa þegar tekist er á við það. Við erum með risastóra lofthelgi sem við þurfum að sinna og höfum sérþekkingu á. Við höfum tekið að okkur erfið verkefni á átakasvæðum. Ég nefni nú bara þegar við tókum að okkur að stýra flugvellinum í Kabúl á fyrsta áratug þessarar aldar. Það var ekkert lítið verkefni. Þar höfum við auðvitað sérþekkingu sem nýttist vel á þeim tíma. Eins og áður segir, ég vil bara taka undir með hv. þingmanni, það er ekki eftir neinu að bíða. En við þurfum auðvitað að tryggja líka að þær stofnanir sem við erum með til staðar nú þegar, eins og Landhelgisgæslan og það má nefna auðvitað ríkislögreglustjóra líka, hafi þá fjármuni sem til þarf til að sinna sínu hlutverki.