154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

ákvörðun um frystingu fjármuna til UNRWA.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að spyrja um þetta mikilvæga mál. Til að byrja á því að svara því sem kom fram í lok hans fyrirspurnar þá ræddi hæstv. utanríkisráðherra þetta mál við ríkisstjórnina eftir að hann kynnti þessa ákvörðun. Hann ræddi þetta líka við utanríkismálanefnd Alþingis eftir að hann kynnti þessa ákvörðun. Raunar tel ég að þetta hafi komið fram í síðasta fyrirspurnatíma sem ég sat hér í þinginu. Ég vil segja það hér að ég lít ekki á þessa ákvörðun sem endanlega ákvörðun heldur að íslensk stjórnvöld gefi sér tóm til að fara yfir málefni UNRWA. Það var haldinn fundur þar sem sátu fulltrúar utanríkisráðuneytisins með UNRWA þar sem mjög margt mikilvægt kom fram, m.a. að UNRWA og Sameinuðu þjóðirnar hafa brugðist mjög hratt við þeim ásökunum sem hafa verið uppi. Því hefur verið lýst yfir að allir þeir starfsmenn sem mögulega hafi komið að ólögmætu athæfi og hryðjuverkum verði dregnir til ábyrgðar. Það er búið að setja fram áætlun um viðbragð Sameinuðu þjóðanna sem ég tel trúverðuga. Ég legg á það mjög ríka áherslu að þessu samtali verði lokið, að það verði unnt að hefja aftur greiðslur til stofnunarinnar. Ég vil minna á að kjarnaframlag Íslands átti að berast á fyrsta ársfjórðungi þannig að það eitt og sér er kannski ekki dagaspursmál. Milljónir manna leggja allt traust sitt á þá aðstoð sem kemur í gegnum UNRWA og það er okkar mat að það er engin önnur stofnun sem hefur getu til að veita sambærilega aðstoð og veitt er af hálfu þessarar stofnunar.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni sem minnir hér á ályktun Alþingis. Hún var mjög skýr og afgerandi um að Ísland eigi að leggja sitt af mörkum þegar kemur að mannúðaraðstoð á Gaza. Ég er sammála þeirri ályktun og studdi hana að sjálfsögðu hér í þinginu og því legg ég mikla áherslu á að (Forseti hringir.) þessu samtali verði lokið og unnt verði að halda áfram eins og við höfum verið að gera, því sannarlega höfum við verið að auka okkar framlög í þetta verkefni.