154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sjávargróður og þörungaeldi.

342. mál
[17:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta fyrirspurn og ágætar umræður. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanna á þeirri góðu stefnu sem ég vitnaði í áðan þar sem er fjallað ágætlega um þörungarækt, m.a. komið inn á rannsóknastarf, skyldu á rannsóknum í stórþörungaeldi, útgáfu tímabundinna rannsóknar- og þróunarleyfa sem skulu auglýst eða boðin út með almennum hætti og enn fremur er lagt til að áður en til leyfisveitinga komi skuli stórþörungaeldi vera skráningarskylt og þar felist skylda til skráningar á framleiðslumagni, þörungategundum og framleiðsluferlum. Það er því búið að vinna heilmikla stefnu, og ég get haldið áfram, sem er skipt upp í aðgerðir fyrir árið 2028 og svo sýn til 2040. Þarna er fjallað líka um smáþörungaeldi, þarfagreiningu fyrir báðar framleiðslugreinar, rannsóknir á hagkvæmni þess að nota þörunga í fiskifóður. Það er fjallað um leyfisveitingaferlið og hvernig hægt er að skerpa og skýra það og einmitt að það þurfi að skilgreina svæði til rannsóknar og þróunar á stórþörungaeldi, afmarka þau að teknu tilliti til burðarþols og áhættumats sem yrði unnið af Hafrannsóknastofnun. Það þurfi að horfa til þess að vinna eða breyta strandsvæðaskipulagi fyrir þau svæði sem þykja vænleg til stórþörungaeldis.

Þarna er því búið að leggja dálítið fram hvað þarf að gera og þarna er líka lagt til að fyrir árið 2028 verði komin lög um þessi mál. Eins og kom fram í máli mínu áðan er það næsta mál á dagskrá í matvælaráðuneytinu. Við eigum von á lagareldisfrumvarpi inn í þingið á næstu vikum vonandi en þetta mál verður svo unnið í kjölfarið. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að það er best einmitt, áður en lagt er af stað, að huga að öllu því sem þarf að gera. En mér sýnist stefnumótunin leggja töluvert góðan grunn fyrir það.