154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

áhættumat vegna hugsanlegra jarðhræringa og eldsumbrota.

637. mál
[17:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Svo ég byrji á fyrirspurninni sjálfri hjá hv. málshefjanda, og ég þakka henni kærlega fyrir fyrirspurnina, þá er hafin vinna við undirbúning heildstæðs áhættumats vegna eldgosa og annarrar jarðrænnar náttúruvár fyrir Reykjanesskaga. Þar ræðir um svæði með austurmörk um Ölfusá, Sog og Þingvallavatn og norðurmörk um sunnanverðan Hvalfjörð. Hafnarfjörður, Hveragerði og Vogar yrðu því hluti svæðisins. Meginmarkmiðið er að draga úr tjónnæmi vegna eldgosa og annarrar jarðrænnar náttúruvár og áhersla lögð á þá þætti er lúta að verndun lífs og heilsu almennings og virkni mikilvægra innviða.

Þetta er mjög viðamikið verkefni og mun taka til eldgosa og annarrar jarðrænnar náttúruvár, því að hún er margháttuð. Þar má nefna jarðskjálfta, skriður, hraun og gas. Á svæðinu eru fimm eldstöðvakerfi á landi: Reykjanes, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill, og eitt neðansjávarkerfi sem tengist Eldey. Auk eldstöðvakerfanna liggur þverbrotabelti Reykjaness eftir endilöngum sunnanverðum skaganum. Þessi kerfi verða rannsökuð og hætta og áhætta, áhrif á áhrifasvæði þeirra vegna hraunrennslis, gasmengunar, gjóskufalls, jarðskjálfta og skriðufalla verða könnuð. Það er augljóslega mikið gagn í slíku áhættumati en það sem við verðum líka að átta okkur á er að nýir atburðir geta breytt vinnunni við áhættumatið eða haft áhrif á þá vinnu. En það liggur fyrir að það eru gríðarlega margir sem munu hafa gagn af slíku áhættumati og hugsunin er sú að byggja upp ákveðna vefsjá þar sem niðurstöðum verður komið á framfæri á skýran og vel nýtanlegan hátt fyrir alla hagaðila. Það er Veðurstofa Íslands sem vinnur þetta verkefni og hún leitar nú allra leiða til að flýta því eins og unnt er. Stefnt er að því að það vinnist á innan við tveimur árum en tímaáætlun er háð því að fullnægjandi fjármögnun fáist til verkefnisins — þegar hefur verið aukið við fé til að flýta þessu verkefni — og að unnt verði að ráða í nauðsynlegar sérfræðingsstöður.

Ég vil líka nefna það að Veðurstofan vinnur nú þegar að hættumati vegna eldgosavár fyrir höfuðborgarsvæðið sem mun skila sér inn í þetta áhættumat. Það liggur fyrir skýrsla um langtímahættumat fyrir Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns þar sem er að finna upplýsingar um Voga. Það er líka hafin vinna við gerð langtímaáhættumats vegna eldgosa fyrir landið allt og það er brýnt að ljúka þeirri vinnu. Þegar lokið hefur verið við gerð heildstæðs áhættumats fyrir Reykjanesskaga þarf því að taka fyrir næstu svæði þar sem eldvirkni getur haft áhrif á byggð og mikilvæga innviði og þar vil ég nefna Öræfajökul, eldstöðvakerfin á Snæfellsnesi og á Kröflusvæðinu.

Eins og ég nefndi áðan hefur Veðurstofan yfirumsjón með þessari vinnu og lögum samkvæmt annast hún gerð hættumats vegna náttúruhamfara, ýmist að beiðni almannavarnayfirvalda eða annarra stjórnvalda. Hún hefur sömuleiðis verið að vinna hættumat vegna ofanflóða, vatnsflóða og sjávarflóða en það liggur líka fyrir, eins og ég nefndi, að það að þurfa að vera í stöðugu viðbragði eins og staðan hefur verið tefur dálítið fyrir þessari langtímavinnu. Við vorum áðan að ræða stöðu og mönnun almannavarna og ég leyfi mér að segja það hér að þó að bætt hafi verið í til Veðurstofunnar er það auðvitað mikil ábyrgð sem sú stofnun þarf að axla, bæði í því að bregðast við viðbragði frá degi til dags þegar svona hræringar ganga yfir en líka að vera í langtímaverkefni. Ég tel fulla ástæðu til þess að þingið fari heildstætt yfir þau mál því að þetta eru undirstöðustofnanir sem þurfa að geta í senn verið að vinna langtímavinnu og í hinu daglega viðbragði.

Í blálokin vil ég síðan nefna skýrslu um náttúruvá sem kom út í apríl 2023 og var unnin á vegum umhverfisráðuneytisins og kom til vegna samþykktrar þingsályktunartillögu umhverfis- og samgöngunefndar á vorþinginu 2021, þar sem kemur fram að það þurfi að gera hættumat vegna allrar náttúruvár sem Ísland býr við, þ.m.t. eldgosavár. Þar kemur fram, og mér finnst mikilvægt að halda því til haga, að þetta eru sífelluverkefni sem þarf að endurskoða reglulega. Þá þarf að taka mið af tækniþróun, það þarf að taka mið af stærra gagnasafni, niðurstöðum rannsókna, aðlögunaraðgerðum, þróun samfélagsins og áhættuviðmiðum. Ég ætla að ljúka mínu máli á því að ítreka það sem ég sagði hér áðan, og tók þá undir með hv. þm. Sigmari Guðmundssyni, að mikilvægi grunnrannsókna þegar kemur að náttúruvá og hættu verður seint nægjanlega ítrekað. Þess vegna skiptir máli þegar við mótum okkar stefnu til lengri tíma þegar kemur að grunnrannsóknum að við horfum sérstaklega á þennan þátt, hvernig við erum að sinna rannsóknum á sviði náttúruvár.