154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

gervigreind.

650. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þegar ég var að hinkra eftir því að það kæmi að þessari fyrirspurn þá rakst ég á mynd frá mótmælum í París þar sem bændur voru búnir að hlaða upp risastórum fjöllum af heyi til að girða fyrir götur o.s.frv. Nema hvað, myndin var búin til af gervigreind og ýmsir virðast hafa fallið fyrir því að þetta hafi verið raunveruleg mynd. Aðstæðurnar sem við erum í eru mjög áhugaverðar af því að núna er hægt að gera í rauninni það sem kannski hefur áður verið skopmyndateikning eða eitthvað því um líkt á þann hátt að hún er svo raunveruleg að við bara trúum henni, alla vega við fyrstu sýn. Þetta mun þýða rosalega miklar breytingar, samfélagsbreytingar. Þetta þýðir rosalega margt og mikið fyrir menningarlífið, hvernig þetta tæki birtist í rauninni sem pensill í höndum þeirra sem eru ekkert endilega æfðir eða þjálfaðir í því að beita pensli eða hljóðfæri eða nota hvaða listsköpunaraðferð sem er og verða mögulega bara nokkuð færir í að gera ný verk, herma eftir verkum, gera paródíur eða skopmyndir og þess háttar. Það mun setja okkur í mjög áhugaverða stöðu gagnvart málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðherra og það er sérstaklega áhugavert að menningar- og viðskiptaráðherra er hérna fyrst til þess að koma og svara þessari spurningu.

Spurningarnar sem ég legg hérna fram eru meira einmitt upp á vangaveltur að gera af því að sviðið er mjög breitt. Hæstv. ráðherra hefur haft t.d. áhuga á íslensku. Ég tel að þetta tæki sem gervigreind býður upp á sé í rauninni ákveðinn bjargvættur smærri tungumála að miklu leyti. Þetta brýtur niður tungumálavegginn sem slíkan, þetta er endurreisn á Babelsturninum upp á það að gera að þegar um sjálfvirkar þýðingar er að ræða þá skiptir ekki máli lengur á hvaða tungumáli við höfum samskipti. Þó að misskilningur í samskiptum sé mjög erfiður þá er það alla vega áhugavert. Það sem ég hef kannski helst áhuga á að vita er hvað ráðherra sér fyrir sér um áhrif gervigreindar, áskoranir hennar og hagnýtingu gagnvart stjórnsýslunni. Ég held að það verði mjög spennandi að sjá hvað við getum í rauninni gert með gervigreindina í stjórnsýslunni. Sumir hafa spáð því að á næsta áratug verði 20–30% starfa sem koma við lyklaborð einfaldlega óþörf. Það getur vel verið að eftirspurnin verði meiri þannig að störfum muni ekki fækka en alla vega miðað við núverandi stöðu. (Forseti hringir.) Ég held að þetta muni hafa mjög mikil áhrif t.d. á lögfræðinga og forritara og alla sem búa til texta. Þetta verður mjög spennandi tímabili og ég hlakka til að heyra svör ráðherra.