154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

gervigreind.

650. mál
[17:43]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að vekja máls á gervigreind og spyrja út í hana og það sem ég mun fara hér yfir er samspil gervigreindar og máltækni og hvernig við erum að nálgast það. En áður en ég byrja að svara spurningum hv. þingmanns þá langar mig aðeins að greina þinginu frá því að fyrir tæpum tveimur árum þá var skipulögð heimsókn á vegum forsetaembættisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins til þess að hitta tæknirisa í Kaliforníu til þess að koma íslenskunni betur að. Einn slíkur fundur var hjá fyrirtækinu OpenAI og þá var maður í fyrsta sinn að fá kynningu á því hvernig hægt væri að nota gervigreindina og máltækni. Það er skemmst frá því að segja að þetta er einn af þessum fundum sem ég mun aldrei koma til með að gleyma því að ég hafði ekki áttað mig á þeim tímapunkti, og nú eru að verða komin tvö ár, hversu langt þessi tækni væri komin. Og nákvæmlega eins og hv. þingmaður sagði þá er þetta þannig breyting, eins og margir hafa sagt, að þetta er ein mesta tæknibylting sem við erum að fara að nýta okkur en við þurfum líka að horfast í augu við þær áskoranir sem fylgja henni.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé búið að gera úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum ráðherra og stofnunum á hans ábyrgð. Það er alveg ljóst, eins og ég sagði, að þetta er algerlega nýr veruleiki, gervigreindin, og það er mín skoðun að við eigum að taka á móti henni með opnum örmum. Það gerðum við strax núna fyrir rúmum tveimur árum og afrakstur þess er að sjálfsögðu sá að íslenskan komst hratt og örugglega þarna inn. Við getum séð það, m.a. vegna þess að við höfum verið að nýta okkur þessa tækni, hvað það hefur verið að þróast verulega og hvað gervigreindin er alltaf að verða færari í því að nota íslensku. Vinna við næstu máltækniáætlun hefur verið í gangi í ráðuneytinu síðustu mánuði og er nú á lokametrunum og tekur mið af því hvernig við getum hagnýtt þetta enn frekar. Í fyrstu máltækniáætluninni vorum við fyrst og síðast að byggja þessa traustu innviði, búa til orðabanka og gera þetta í svokölluðu opnu kerfi þannig að allir gætu nálgast þetta og hagnýtt sér það. Í næstu máltækniáætlun, sem við erum á lokametrunum að ganga frá og drög að skýrslu þess efnis er í prófarkalestri akkúrat þessa dagana, leggjum við megináherslu á hagnýtingu þeirrar tækni, nákvæmlega eins og hv. þingmaður er að spyrja út í. Við erum þegar búin að gera samning til skamms tíma, út septembermánuð, við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um að sinna þessu hlutverki á meðan er verið að hrinda næstu máltækniáætlun af stað og þá munu sérfræðingar frá stofnuninni fara inn á vinnustaði og kynna möguleika þessarar tækni og hvernig fólk geti nýtt sér hana í daglegum störfum.

Þá er einnig spurt að því hvort við séum að líta á það á hvaða málefnasviðum og hjá hvaða stofnunum væri hægt að nýta gervigreind. Það hefur ekki átt sér stað nákvæm greining á því hvar hægt er að nýta gervigreind á einstaka málefnasviðum og stofnunum. Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel þá er auðvitað umhverfi gervigreindarinnar þannig í dag að það er alveg gríðarlega mikil framþróun. En að sumu leyti erum við í ákveðnu millibilsástandi, ekki bara hér á Íslandi heldur allur heimurinn. Við erum á þeim stað að það eru allir að prófa sig áfram með þessa nýju tækni og það sem mjög margir héldu að væri best að gera fyrir tveimur mánuðum, þar er jafnvel komin einhver ný lausn. Það verður að segjast alveg eins og er að í mörgu sem við höfum verið að líta á og ætlað að ráðast í eru komnar, eins og ég sagði rétt áðan, nýjar og betri, skilvirkari og ódýrari lausnir þannig að það flækir málið. En ég tel að nálgun okkar á verkefnið upphaflega, þegar við fórum í það, hafi verið til heilla fyrir tungumálið okkar og næstu skref sem við erum að fara að taka er varða gervigreind. En ég kem nánar inn á það hér í mínum lokaorðum.