154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

gervigreind.

650. mál
[17:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn og þakka hæstv. menningarmálaráðherra fyrir svarið. Ég tel um gríðarlega mikilvægt mál að ræða, sem er gervigreind, og það var gott að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði um íslenskuna og gervigreind. Ég er varaformaður Vestnorræna ráðsins og við ætlum að halda þemaráðstefnu um stöðu þessara tungumála, íslensku, grænlensku og færeysku á netinu og þar munum við örugglega ræða stöðuna þegar kemur að gervigreind. Ég tel að þessi bylting sem er að fara að eiga sér stað og á sér stað núna muni líklega breyta lífi okkar allra líkt og netið hefur gert, snjallsímarnir og sú tækni sem hefur átt sér stað í samskiptum fólks. Þá þurfa sannarlega lögin að fylgja með. Við þurfum að tryggja það líka að við nálgumst gervigreind með íslenskunni, það er grundvallaratriði. Hitt kemur síðan seinna. Þetta verði á íslensku, það er það sem skiptir miklu máli fyrir okkur.