154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Áfram halda snjóflóð að falla í Súðavíkurhlíð og er mildi að ekki hlýst mannskaði af. Í liðinni viku voru þrjár lokanir og því ástandi er ekki að linna. Lýst hefur verið yfir óvissuástandi í dag. Kaldur veruleiki þar sem íbúar búa hvert ár við viðvarandi áhættu um eigið líf, fjölskyldu, vina og nágranna. Íbúar vilja geta sótt nauðsynlega þjónustu, sinnt vinnu, sótt skóla og útrétta sem við öll en einnig að búa við það sjálfsagða öryggi að hægt sé að ná til þeirra þegar aðstæður skyndilega krefjast þess, svo sem vegna læknisaðstoðar. Enn og aftur berast okkur fréttir af endurteknum vegalokunum, að fólk á ferð hafi lent í stórfelldri hættu vegna snjóflóða sem að því falla og jafnvel skilið að bíla í hlíðinni, ekki öllum stundum ljóst um tíma hvort allir sem leið áttu um hafi komist farsællega á leiðarenda. Vanmáttugir innviðir til að meta og tryggja almannaöryggi og bregðast við hættuástandi. Byggðarlagið á betra skilið.

Við verðum öll að sameinast um að flýta Súðavíkurgöngum á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi. Sú jarðgangagerð þolir ekki lengri bið. Til að svo geti orðið verða sveitarfélögin á Vestfjörðum, stjórnvöld og Alþingi að leggjast á eitt um að Súðavíkurgöng verði forgangsverkefni í jarðgangagerð á Íslandi, hönnunarvinnu og rannsóknum hraðað sem mest má og tryggð fjárveiting til verksins. Þá þarf strax að efla snjóflóðavarnir í Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum og tryggja vegi gegn grjót- og aurskriðum uns jarðgangagerð er lokið. Auk þess að tryggja ferðaöryggi fólks munu slík jarðgöng fela í sér byltingu fyrir byggðarlagið og opna á frekari tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs og samfélags á svæðinu.