154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skoðanaskiptin um þetta. Ég held að í grundvallaratriðum séum við nú býsna sammála um það að þegar við erum að marka einhverja stefnu í einhverjum málaflokki til lengri tíma litið þá hljótum við að reyna að rýna öll þau gögn sem liggja fyrir, eru jafnvel byggð á vísindalegum rannsóknum og staðreyndum og jafnvel á því sem reynt hefur verið í öðrum löndum og gefist vel eða illa og allt þetta verði hluti af þessari vinnu. Þetta þarf allt saman að vera undir. En þar sem ég hef að meginefninu til verið að velta þessu fyrir mér út frá þeim sem mest eru veikir þá held ég að þessi lýðheilsumarkmið í sjálfu sér — fólk er eiginlega komið svolítið yfir þann hjalla að rök um hollustu eða heilbrigði skipti í sjálfu sér máli. En þetta á auðvitað heima í því sem snýr að forvarnahlutanum og öllum þessum fyrirbyggjandi aðgerðum sem við hljótum að hafa með okkur í vinnunni þegar við erum að skoða þetta. Eitt er að grípa fólk þegar það er orðið alvarlega veikt. Hitt er síðan að koma í veg fyrir að fólk verði mjög veikt eða grípa nægilega snemma inn í til þess að fólk eigi möguleika á því að lifa eðlilegu lífi án þess að vera ofurselt áfengi eða vímuefnum.

Mér finnst bara frábært að fá svona pælingar inn í alla þessa vinnu. Og af því að hv. þingmaður var að nefna að það væri gott að fá fram þessa tillögu óháð því sem er í gangi í ráðuneytinu þá vonast ég til þess að það sem er í gangi þar sé a.m.k. einhver viðleitni í því að við munum til lengri tíma vinna eftir einhverju plani. Við gerum það í samgöngumálum. Við erum að tímasetja og reyna að fjármagna áætlanir í loftslagsmálum. Við erum að móta okkur stefnu þegar kemur að mörgum öðrum þáttum heilbrigðisins. (Forseti hringir.) Við erum að reyna að gera það í menntakerfinu, vinna eftir einhverju plani, hafa einhverja sýn. Það að við séum ekki að gera það í þessum málaflokki er óboðlegt til lengri tíma.