154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innleggið. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræðu um það hvað af lyfjunum — þetta sem við í daglegu tali köllum læknadóp — eigi að nota og hvað ekki. En mig langar að nefna það við þingheim að ég held það sé hollt fyrir okkur öll að skoða svolítið söguna af því hvers vegna oxycontin varð svona algengt verkjalyf. Það var markaðssett í Bandaríkjunum sem sterkt verkjalyf sem væri öðruvísi en hin verkjalyfin að því leyti til að fólk yrði ekki háð því. Þannig fór það í gegnum allt lyfjaeftirlitið, blessað og staðfest af yfirvöldum í Bandaríkjunum. Um þetta eru til sjónvarpsþættir, bækur og annað. Afleiðingin er sú að milljónir fengu þessu lyfi ávísað vegna þess að læknarnir héldu að þeir væru að ávísa lyfi sem væri öruggt að ávísa. Faraldurinn sem síðan brýst út í framhaldinu er bara staðreynd og það hefur reyndar endað þannig í Bandaríkjunum að fjölskyldufyrirtækið sem framleiddi þetta lyf hefur þurft að greiða óheyrilegar skaðabætur til þeirra sem fallið hafa vegna þessa faraldurs.

Það sem snýr að fíkninni sjálfri og rótum hennar; hv. þingmaður kom ágætlega inn á þetta. Ég held að það sé orðin talsverð sátt um þá kenningu að áföll hafi mikið að segja í þessu. Við höfum vísindamenn sem hafa verið að reyna að velta því fyrir sér hvort þetta liggi einhvers staðar í genamenginu. Það getur verið erfitt fyrir okkur að átta okkur á því. Oft liggur alkóhólismi í fjölskyldum. En er það út af því að börn alast upp við alkóhólisma eða er það hreinlega vegna þess að það er eitthvað í genamenginu? Þetta vitum við t.d. ekki. Þetta er auðvitað mjög hollt að vita. Því fleiri rannsóknir um þetta, því betra. Þetta þurfum við allt að skoða og vega og meta þegar við erum að móta stefnu.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að eins og staðan er núna skilgreinum við fíkn sem sjúkdóm. Þetta er heilbrigðisvandi og rétt eins og með annan heilbrigðisvanda verðum við að grípa fólkið sem þegar er orðið veikt og á úrræðin skilið. (Forseti hringir.) En ég tek undir það að við eigum líka að skoða hver rótin er. Það væri mjög forvitnilegt að vita það.