154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[17:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að segja eins og er að ég er svolítið hissa á þessu seinna andsvari hv. þm. Sigmars Guðmundssonar. Ef hv. þm. Sigmar Guðmundsson styður ekki núverandi kerfi um einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis þá skal hann bara segja það. Það er bara svo einfalt mál. Við greiðum bara atkvæði um þetta og hann verður bara að lýsa sinni skoðun. Er hann fylgjandi einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis eða ekki? Ég er eindreginn stuðningsmaður þess. Ef hann er andstæðingur þess þá á hann bara að segja það.

Staðreyndin er þessi, og það stendur hér í plagginu, „heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuvarnir“, að stefnan á meðal annars að taka til forvarna. Besta forvörnin er að takmarka aðgengið. Rannsóknir hafa sýnt það aftur og aftur; Evrópuskýrslur, læknisfræðiskýrslur, félagsfræðirannsóknir, það er takmörkun á aðgenginu.

Varðandi hinn áfengissjúka: Þegar hann er orðinn sjúkur af áfengissýkinni þá skiptir aðgengi öllu máli. Hann getur ekki vaknað upp á morgnana, farið á netið og látið senda til sín flösku strax í morgunsárið, fyrir hádegi eða bara hvenær sem er sólarhringsins. Það er aðgengi sem skiptir máli, að þú fallir ekki, getir ekki komist á netið og látið panta þetta bara strax og komið innan 30 mínútna, klárað þá flösku, pantað svo aftur aðfaranótt sunnudags, aðfaranótt mánudags, hvenær sem er. Það skiptir öllu máli fyrir áfengissjúklinginn, tel ég. Þetta er hagkvæmasta og árangursríkasta leiðin til að gera það, tala nú ekki um ríki sem er með undirfjármagnaðan samning við áhugamannasamtök sem reka áfengissjúkrahús, að þeir skuli ekki nota þessa aðferð sem er árangursríkust og hagkvæmust er alveg galið og líka algerlega galið að það sé verið að grafa undan henni eins og er verið að gera með netsölu á áfengi hér á Íslandi. Það er algerlega galið líka að einhverjir hagsmunaaðilar úti í bæ og stjórnmálaflokkur haldi því fram, og einhverjir halda því fram hérna, máttarstólpar í samfélaginu, frá einhverjum verslunarsamtökum eða hvað það heitir allt saman, að þetta sé löglegt. En samt vilja þeir fá frumvarp um að lögleiða þetta. (Forseti hringir.) Þessi blekking gagnvart íslensku samfélagi og hræsni er algerlega með hreinum ólíkindum. (Forseti hringir.) Að íslenskur almenningur skuli ekki rísa upp, löghlýðnir borgarar í þessu landi, og mótmæla þessu segir mér að það er eitthvað að. (Forseti hringir.) Ég skora á alla að kæra netsölu áfengis til lögreglunnar, gera það bara strax.