154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

breytingar á aðalnámskrá grunnskóla.

87. mál
[19:31]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var mjög gott að heyra. Ég las um daginn mjög góða grein eftir flokkssystur hennar og formann allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, sem hún skrifaði í vefmiðilinn Mosfelling þar sem hún hvatti grunnskóla í sínu bæjarfélagi til að taka upp þessa aðferðafræði. Það er frábært að heyra að hv. þingmaður ætli að gera það sama í því bæjarfélagi sem hún kemur frá, sem er Garðabær. Ég er búinn að tala við sveitarstjórnarmenn í mínu kjördæmi og þeir hafa einfaldlega sagt við mig að það sé svo mikil mótstaða hjá kennurum að þeir leggi ekki í slaginn raunverulega. Það eina sem ég veit er að það er komið smá í Lindaskóla, þeir hafa sýnt þessu áhuga þar. En það er ekki áhugi neins staðar annars staðar, ekki einu sinni á að prófa þetta. Við erum að tala um að þessi árangur sem er búið að sýna fram á — ég get tekið dæmi líka í Bandaríkjunum en þeir eru búnir að breyta um stefnu í ríkjum Bandaríkjanna og taka upp beina kennslu. Þetta snýst um að taka upp beina kennslu í viðeigandi grunnfærni í lestri og síðan öðrum fögum. Ég skora á Sjálfstæðisflokkinn hvað þetta varðar og frábært að heyra þetta hér.

Þetta snýr að mannauði. Einkageirinn verður að krefjast þess, Samtök atvinnulífsins verða að fara að krefjast þess að það verði eitthvað gert í menntamálum þjóðarinnar, mannauði og framleiðni. Vellíðan barna byggist líka á lestri. Barni sem kann ekki að lesa líður illa í íslensku samfélagi. Þetta hefur afleiðingar fyrir alls konar hegðun sem er óæskileg, jafnvel áfengi eða hvað sem það er. Fólk sem nær ekki að lesa nær ekki tökum á lífinu og verður ekki fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi. Það er þáttur núna í kvöld á RÚV varðandi inngildingu. Við verðum að sjá til þess að öll börn sem eru fædd hér og fara í gegnum menntakerfið njóti inngildingar.

(Forseti hringir.) Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessi orð og ég vonast til að baráttan muni halda áfram. Það er gott að vita af nýjum liðsmanni í þessari baráttu. (Forseti hringir.) Við þurfum öll að standa saman í þessu.