154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Seðlabanki Íslands.

662. mál
[17:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða. Þó svo að lagagreinar frumvarpsins séu stuttar þá er efni greinargerðarinnar langt og það sýnir mikilvægi málsins. Eins og kemur fram í greinargerðinni fara yfir 90% af öllum smágreiðslum á sölustað eða hjá þjónustuveitenda fram í gegnum greiðslukortainnviði alþjóðlegra kortasamsteypa. Vissulega rekur Seðlabankinn millibankagreiðslukerfi. En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um smágreiðslumiðlunina sem eru þær greiðslur þegar við förum út í búð og greiðum og fara 90% í gegnum hin alþjóðlegu fyrirtæki Visa og Mastercard, þau voru nú fleiri hérna áður, Diners Club og hvað þau hétu. Það segir í greinargerðinni, þar sem nánar er fjallað um 2. gr., með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er nánar útlistað hvers efnis þessar reglur bankans geti verið. Með fyrirkomulagi innviða innlendrar greiðslumiðlunar er t.d. átt við eignarhald, rekstur og tegund innviða vegna greiðslumiðlunar.“

Varðandi þetta atriði, eignarhaldið, þá er spurning mín þessi: Liggur eitthvað í kortunum um það að Seðlabankinn eigi og reki smágreiðslumiðlun? Og ef svo er, mun það ekki stangast á við það sem var raunverulegur tilgangur greiðsluþjónustutilskipunar Evrópusambandsins, PSD2 svokallaða eða „Payment Services Directive“ númer 2, að þetta ætti að vera í höndum einkaaðila. Evrópusambandið ætlaði að gefa einkaaðilum í raun lausan tauminn á grundvelli tækninýjunga, að þeir myndu búa til þessa járnbrautarteina sem smágreiðslumiðlunin er þar sem einstaklingar gefa samþykki fyrir því að greiðsluþjónustur geti tengst bankareikningum bankanna. Það eigi að vera samkeppni þar. (Forseti hringir.) Ætlar ríkið að fara í smágreiðslumiðlun? Er það ekki hlutverk einkaaðila og þá tæknifyrirtækja?