154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar.

93. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Enn og aftur, ég er kannski að verða búin að týna tölunni, mæli ég hér fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna. Með mér á þessu máli er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins að vanda, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Öllum öðrum þingmönnum, 57, var einnig boðið að vera með okkur á frumvarpinu en gerðu það sem sagt ekki.

1. gr. orðist svo:

„Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:

a. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Atvinnutekjur.

b. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.“ — Stendur hérna og ég held að við höfum það eitthvað aðeins seinna. Við eigum eftir að breyta pínulítið vegna þess að í einhverju bjartsýniskasti þá hélt maður hreinlega að þetta næði fram að ganga.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta: „Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að skerðingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði afnumdar. Málið var áður flutt á 148., 149., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (72. mál) en hlaut ekki brautargengi …“ — eðli málsins samkvæmt því að annars stæði ég ekki hér en nú er það sem sagt endurflutt eina ferðina enn efnislega óbreytt en uppfært með tilliti til lagabreytinga frá síðustu framlagningu.

„Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Þetta sérstaka frítekjumark kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 300.000 kr. á ári. Ef ellilífeyrisþegar hafa launatekjur yfir 2.400.000 kr. á ári skerðist ellilífeyrir þeirra um 45% af því sem umfram er. Lengi vel stóð frítekjumarkið í 1.200.000 kr. en síðla árs 2021 var frítekjumarkið tvöfaldað.“

Ég ætla að nota þetta tækifæri og leiðrétta mig í málinu sem ég flutti hér áðan um skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja. Þar talaði ég um að þeir væru enn með 109.000 kr. frítekjumark á mánuði en því var breytt einmitt 2023. Þá var frítekjumark þeirra launa hækkað til samræmis við það sem eldra fólk hafði fengið einhverjum árum áður.

„Skerðingar á atvinnutekjum ellilífeyrisþega hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarinn áratug. Frítekjumarkið þótti of lágt og skerðingarhlutfallið of hátt. Eldra fólk benti ítrekað á að þetta hefði þær afleiðingar að vinna hefði lítil sem engin áhrif á ráðstöfunartekjur. Þegar launatekjur eru skattlagðar og leiða einnig til skerðinga á ellilífeyri þá situr nánast ekkert eftir.

Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017.“

Eins og þið sjáið er árið 2024 byrjað og hér er ég enn. Hér er ég enn að reyna að draga þetta fram og sannfæra fólkið okkar hér, kjörna fulltrúa, þingheim allan, um að málið sé gott og þess virði að taka utan um það.

En það kom fram hjá Hauki Arnþórssyni að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þyrfti bara alls ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og að það væri vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af málinu.

„Í kjölfar þinglokasamninga sumarið 2019 samþykkti Alþingi að láta framkvæma úttekt á því hver kostnaðurinn yrði ef frumvarp Flokks fólksins um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna næði fram að ganga. Félagsmálaráðuneyti fékk Capacent til að framkvæma úttektina. Capacent skilaði úttektinni snemma árs 2020. Samkvæmt niðurstöðum Capacent myndi afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð um 2,1 milljarð kr.“

Það vekur hins vegar spurningar þegar tvær úttektir um sama viðfangsefni skila svona misvísandi niðurstöðum. Úttekt Hauks Arnþórssonar benti til þess að ríkissjóður gæti haft allt að 3 milljarða kr. ábata af því að heimila þessa atvinnuþátttöku eldra fólks á meðan Capacent — sem fór náttúrlega á hausinn, ég held þetta hafi verið síðasta úttektin sem þau gerðu, ég hef ekki séð meira af þeim eftir það. En það vekur sem sagt eðlilega spurningar þegar tvær úttektir um sama viðfangsefni eru svona rosalega misvísandi. Við þingmenn Flokks fólksins höfum ítrekað kallað eftir því að fá aðgang að þeim forsendum sem liggja að baki niðurstöðu Capacent en ráðuneytið hefur enn ekki veitt okkur aðgang að þeim. Ég hef persónulega talað við hæstv. ráðherra og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er búin að reyna að gera allt sem í mínu valdi stendur til að nálgast í rauninni þær forsendur sem liggja að baki þessari niðurstöðu hjá Capacent.

„Um áramótin 2021–2022 voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar og frítekjumark ellilífeyris hækkað úr 1.200.000 kr. í 2.400.000 kr. Þessum breytingum ber að fagna, en betur má ef duga skal. Fullt tilefni er til að stíga næsta skref og afnema þessar skerðingar með öllu.

Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Núgildandi lagarammi dregur verulega úr atvinnuþátttöku eldri borgara. Fyrsta skrefið í rétta átt hefur verið stigið með tvöföldun frítekjumarksins. Næsta skref þarf að stíga til fulls. Því er lagt til að skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna verði afnumdar.“

Við veltum því fyrir okkur þegar við erum að ganga síðasta æviskeiðið, erum orðin fullorðin og við vitum það, það er sannað mál, að við lifum lengur og við lifum betur, erum frískari lengur. Það er gjörbreyting orðin á því síðustu 30, 40 árin hversu meðalaldur hefur hækkað og hvað í rauninni heilsan okkar fær að vera betri lengur hjá þeim sem eru svo heppnir að fá ekki einhverja dauðans alvörusjúkdóma sem enginn ræður við. En það að kalla eftir frekari virkni fyrir okkur á þessu síðasta æviskeiði — ég hef hitt marga eldri borgara sem segja: Ég bara varð að hætta að vinna vegna þess að þetta skerðir allt og ég er ekki að hafa neitt út úr þessu. Ég er að reyna að vinna 50% starf af því að ég hef heilsu og getu til og langar að vera innan um fólk og það er mér hjartans mál. En hvers vegna skyldi ég gera það? Ég hef ekki krónu fyrir það sem ég er að gera. Skerðingarnar sjá til þess.

Ég bara næ þessu ekki. Og svo kemur líka þetta, að hér hafa hv. þingmenn komið og sagt og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, spurði mig líka að því hér í þessum æðsta ræðustóli landsins hvort við værum að mæla því bót að t.d. einhverjir milljónamenn, framkvæmdastjóri í Garðabæ eða eitthvað með milljón á mánuði væri bara að vinna, vinna, vinna og við myndum bara greiða honum allt óskert frá Tryggingastofnun. Það er bara svo galið að setja dæmið svona upp, fyrir utan það að það er enginn framkvæmdastjóri með milljón á mánuði sem fær eina einustu krónu frá Tryggingastofnun. Hann er löngu kominn yfir þá möguleika að eiga nokkurn rétt á því að fá greiðslur frá Tryggingastofnun, það er ákveðið þak. Það er ekki hægt að standa bara og vinna og vinna og vinna og hafa milljónir á mánuði og ætla að vera með óskertar greiðslur frá Tryggingastofnun. Það er bara rangt og það er ósanngjarnt að reyna að setja hlutina í það samhengi.

Við horfum líka upp á það að við lengjum lífdagana. Við gefum eldra fólkinu okkar á sínu síðasta æviskeiði meiri möguleika á að vera frískt lengur, þurfa síður að vera á lyfjum, síður að vera með kvíða og allt þetta og í rauninni þurfa þau síður að nýta sér aukna læknisþjónustu og annað slíkt á meðan þau treysta sér enn til að vera á vinnumarkaði. Þetta er allt að vinna og engu að tapa. Ég næ bara engan veginn utan um þetta. Hérna myndum við fá staðgreiðslu af sköttum og stór hluti, eins og við vitum, við erum náttúrlega svo skattpínd að það liggur á borðinu að ríkissjóður mun fá miklar tekjur af launum eldra fólks ef við gefum þeim tækifæri á því að fara út að vinna án þess að skerða þau svona. Sýnum þeim fram á það í virðingarskyni líka, sýnum þeim þá virðingu að gefa þeim tækifæri til þess að lifa betur og lifa lengur á síðasta æviskeiðinu. Það er ekkert í veröldinni sem ætti að geta komið í veg fyrir það að stjórnvöld komi svona til móts við okkar elsta aldurshóp í samfélaginu og aðstoði þau eins lengi og þau treysta sér til að vera á vinnumarkaði og njóta félagslegs ávinnings af því að vera innan um annað fólk.

Ég er svo að vona af öllu hjarta að ég þurfi ekki að koma hérna hvert einasta ár sem ég er kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga og tala um það sama sem í rauninni er hagsmunamál fyrir allt samfélagið, sem er mannauðurinn fyrir allt samfélagið. Hver voru aftur kjörorð Framsóknar, fyrir utan það að segja í síðustu kosningabaráttu: Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Voru þau ekki einmitt að tileinka sér hugtök Flokks fólksins um það að fjárfesta í mannauðnum? Við erum mannauður á meðan við drögum andann. Það er bara þannig. Mér finnst illa gert raunverulega að setja fólk þannig til hliðar, að jaðarsetja fólkið sem vill halda áfram í vinnunni, að jaðarsetja það þannig og refsa því þannig að þau hreinlega treysta sér ekki til þess að halda áfram að vinna.

En mig langar þá um leið að nýta þetta tækifæri af því að mér hefur fundist algjörlega að ósekju ítrekað verið talað um það í fjölmiðlum að það sé enginn hér á Alþingi Íslendinga sem er að verja hagsmuni eldra fólks, sem talar máli eldra fólks. Það er rangt. Flokkur fólksins hefur lagt fram a.m.k. 15 þingmannamál nú þegar á þessu kjörtímabili sem öll snúa að bættum kjörum og betri velferð og utanumhaldi fyrir eldra fólk. Það að formaður Landssambands eldri borgara skuli segja það ítrekað í fjölmiðlum að það sé enginn á þingi og hann sé búinn að marg-, margreyna að horfa í augun á okkar sem erum greinilega algjörlega innantóm og full af eintómri vonsku gagnvart eldra fólki — það er rangt. Mér þykir miður að heyra hvernig í rauninni er verið að tala niður verkin sem við erum að vinna hér. Ég segi bara og ítreka að það væri nær að fylgjast með verkunum sem við erum að vinna, þó að það séu nú fáir inni í þingsalnum að gera það, fylgjast með verkunum sem við erum að vinna og a.m.k. hvetja okkur frekar til dáða og þakka okkur fyrir viðleitnina og baráttuna heldur en að gefa manni alltaf einn á snúðinn og láta eins og maður sé ekki að gera neitt, því að það er rangt. Flokkur fólksins er talsmaður og málsvari allra þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu, eiga um sárt að binda og eru að berjast fyrir betri lífskjörum og afkomu. Flokkur fólksins er mjög öflugur málsvari þannig að ég harðneita því að vinna hér í sjö ár og berjast eins og við höfum verið að gera af hugsjón fyrir fólkið okkar og það er svona sem maður fær það beint í andlitið, að maður sé ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Það er rangt.

Herra forseti. Nú nefnilega held að ég að ég viti hvert við eigum að vísa þessu frábæra frumvarpi og það er til hv. velferðarnefndar.