154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd.

96. mál
[19:46]
Horfa

Guðrún Sigríður Ágústsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu hv. þm. Njáls Trausta um að leita allra leiða til að bæta samgöngur á landsbyggðinni. Þess vegna, virðulegur forseti, langar mig að gera alvarlegar athugasemdir við tillögu um samgönguáætlun 2024–2038 sem nú er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Lagt er til að framkvæmdum við Bíldudalsveg um Arnarfjörð verði seinkað til tímabilsins 2029–2033 í stað 2025–2029 líkt og samgönguáætlun kveður á um. Framkvæmdum á þessari leið má alls ekki seinka frekar og nauðsynlegt er að koma þessari framkvæmd af stað samhliða framkvæmdum á Dynjandisheiði. Vegurinn gegnir afar mikilvægu hlutverki við flutning afurða frá Bíldudal og þarf vart að taka það fram hversu miklu munar um að geta keyrt þær afurðir um einn fjallveg í stað þriggja, með tilliti til mikilvægra umhverfisþátta svo eitthvað sé nefnt. Einnig mætti nefna að til þess að Vestfjarðaleiðin, nýja ferðamannaleiðin á Vestfjörðum, geti nýst að fullu þarf þessi vegur að vera nothæfur og þjónustaður allt árið. Það er óásættanlegt fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði að bíða til 2030 eða lengur eftir því að fá fulla nýtingu á veginum. Það sjá allir sem vilja að það er löngu tímabært að styðja við dreifingu ferðamanna um allt landið og það verður ekki gert nema með bættum samgöngum. Auk þess mætti nefna aðgengi atvinnu og þjónustu að ört vaxandi samfélagi á Barðaströnd ásamt því að börn á Barðaströnd gætu sótt skóla á Bíldudal en ekki Þingeyri.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er þetta lykilþáttur í að efla, bæta og virkja uppvöxt í þessu samfélagi sem hefur í tugi ára liðið fyrir slæmar samgöngur.