154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.

[10:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin eða útskýringar á stöðunni en ég velti einmitt fyrir mér hvert sé hlutverk ríkisstjórnarinnar í þessari stöðu. Nú horfum við t.d. til Norðurlandanna sem hafa komið upp sterku og skynsamlegu vinnumarkaðsumhverfi sem er byggt einmitt á sterku velferðarkerfi þar sem tilfærslukerfin leika lykilhlutverk í svona stöðu; barnabætur, húsnæðisbætur, félagslegt húsnæði sem er svo fjármagnað með réttlátum hætti. Þannig er aðhaldið tekið út þar sem svigrúm er til staðar í staðinn fyrir flatar vaxtahækkanir. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á dögunum, með leyfi:

„Það er mikil eftirspurn eftir því að stækka millifærslukerfi og bótakerfi, jafnvel taka þau upp að nýju eða láta vaxa að nýju bótakerfi sem við höfum ákveðið að láta fjara út …“

Hún sagði jafnframt:

„Mér finnst skipta máli að við förum ekki í þessu verkefni fram undan að taka skref aftur á bak […] að við förum ekki að skemma það sem við erum búin að gera.“

Ég spyr því: Telur hæstv. ráðherra tillögur verkalýðshreyfingarinnar um styrkingu tilfærslukerfanna til þess fallnar að skemma það sem ríkisstjórnin er búin að vera að gera frekar en að hjálpa okkur út úr þessum aðstæðum?