154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

Palestínubúar sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

[10:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé eiginlega akkúrat um þessar mundir ársafmæli málþófs Pírata hér í þinginu þegar við vorum með tillögur hér í þinginu til þess að bregðast við þeirri stöðu sem íslenska hælisleitendakerfið er komið í. Nú í vikunni sáum við tölur frá dómsmálaráðuneytinu þar sem er búið að taka saman hvert við erum komin í kostnaði við að halda þessu kerfi úti. Hv. þingmaður heldur því fram að við sýnum ekki nægilega mannúð. Við tökum ekki tillit til fólks í neyð. Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum samþykkt að fleira fólk komi til Íslands frá þessu svæði — ég er nýbúinn að rekja hérna tölurnar um það að þeir sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu frá þessu svæði eru jafn margir í okkar tilviki og á við í heildina um öll Norðurlöndin. Við höfum sem framlagsríki til mannúðaraðstoðar í gegnum UNRWA sett jafn mikið og þeir sem setja allra mest í heiminum ef við skoðum framlag á hvern Íslending. (Forseti hringir.) Það er alrangt að við höfum ekki verið að gera nægilega mikið, að við höfum ekki sýnt mannúð og mildi og tekið tillit til hörmulegra aðstæðna. Þetta er allt saman alrangt. (Forseti hringir.) Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki horfst í augu við afleiðingar þess að ganga of langt í þessum málaflokki. Þess vegna eru innviðirnir á Íslandi sprungnir (Forseti hringir.) og við getum ekki haldið áfram að senda út þau skilaboð að við ætlum að gera mest af öllum.

(Forseti (BÁ ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er takmarkaður við tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í seinni ræðu.)