154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

afkomuöryggi heimila.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er ekki ósammála þegar hv. þingmaður segir að á endanum snúist þetta um getu fólks til þess að bæði eiga og reka húsnæði og eiga í sig og á. Ég er sammála því. Það er kannski eitthvað sem við mættum vera duglegri að tengja við þegar við erum að tala um stórar tölur og prósentur, verðbólgu og vaxtastig, ríkisfjármál og afgang og annað slíkt: Af hverju erum við yfirhöfuð að hafa skoðun á því? Af hverju hefur maður sýn á það hvernig þeir hlutir eiga að vera? Það er auðvitað ekki fyrir ríkissjóð sem slíkan heldur fyrir samhengi hlutanna og einmitt á endanum hvernig okkur gengur sem samfélagi að gera fólki kleift að eiga í sig og á og geta komið sér þaki yfir höfuðið og staðið þar vörð um sig og sína fjölskyldu. Þess vegna viljum við ná verðbólgu niður og ná vaxtastigi niður. Það er erfiðara einmitt fyrir þá hópa sem lakast standa að eiga í sig og á og reka húsnæði og hvað þá að komast inn á húsnæðismarkað þegar uppi eru þær aðstæður sem nú eru uppi. Þannig að ég leyfi mér að halda því fram að við hv. þingmaður séum sammála um þetta.

Varðandi húsnæðislið vísitölu þá hefur Hagstofan þegar kynnt að sú breyting eigi að raungerast á vormánuðum og ég er ánægð með það. Ég hef engin völd til að kippa því úr sambandi eða stinga því í samband frá og með deginum í dag enda er það á ábyrgð Hagstofunnar sem hefur sýnt fram á að þeirra nýja útfærsla á þessu, hvernig þetta er reiknað, er betri leið heldur en sú sem nú er og það þurfi að gera þetta með réttum hætti. Það er búið að kynna þetta og það er gott og styttist mjög í að það taki gildi. Við höfum auðvitað horft fram á miklar launahækkanir hér, (Forseti hringir.) 10% launahækkanir undanfarið ár, sem líka hefur áhrif á það hvernig þessir liðir eru reiknaðir. (Forseti hringir.) En ég bara segi: Við erum sammála um að heildarmarkmiðið sé að ná verðbólgu og vöxtum niður og við hljótum að vinna út frá því.