154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

almannatryggingar.

100. mál
[12:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, afnám búsetuskerðinga. Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins, sem er breyting á 16. gr. laga um almannatryggingar, þá skal ekki takmarka réttindi vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu. Svo segir í 2. gr. að ekki skal takmarka réttindi vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu. Þetta eru samhljóða greinar við sitthvora greinina í almannatryggingalögunum.

Réttur til almannatrygginga á Íslandi er skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru óháðar því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar, þ.e. íslenskur ríkisborgari sem flytur erlendis og fær engin réttindi þar, fær skert réttindi eða takmörkuð réttindi samkvæmt almannatryggingum. Hér er gríðarlegt óréttlæti á ferðinni. Við búsetu einstaklings erlendis fær hann engan rétt. Það skerðir réttinn. Hann fær ekki réttinn í landinu og ekki heldur frá Íslandi. Það er gríðarlega ósanngjarnt.

Mér datt strax í hug að kíkja í stjórnarskrána. Í 66. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um íslenskan ríkisborgararétt og ferðafrelsi. Það kemur fram í 2. mgr. að íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi, sem er mikilvægt ákvæði og kom til umræðu í kringum Covid. Svo segir í 3. mgr., sem ég ætla að fjalla um, að engum verði meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Í þessu felst að það á ekki að meina neinum að hverfa úr landi. Maður getur sagt það að við það að einstaklingur flytur erlendis í ákveðinn tíma þá sé verið að setja þröskuld með skerðingunni, búsetuskerðingunni. Það er kannski ekki verið að meina honum algerlega að fara, en það er verið að gera honum erfitt fyrir að fara úr landi og búa erlendis um ákveðinn tíma því hann missir allan rétt. Hann fær engan stuðning frá almannatryggingum við það að fara úr landi og tapar rétti sínum. Það er ekki sanngjarnt. Það er mismunun. Og á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins þar sem er frjáls för fólks þá get ég ekki séð annað en að það gangi gegn frelsinu á EES-svæðinu ef einstaklingur sem ferðast á Evrópska efnahagssvæðinu og kýs að búa um tíma t.d. annars staðar hefur þá kannski engan rétt.

Eins og kemur fram í greinargerðinni þá er þetta ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu og fer á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það að lífeyrir skerðist vegna lífeyrisgreiðslna erlendis frá er sjálfsagt, maður skilur það alveg. Einstaklingur fer héðan til annars lands og fær réttindi og greiðslur frá því landi sem hann dvelur í og guð forði okkur frá því að hann sé að fá greiðslur bæði frá Íslandi og landinu sem hann dvelur í, það væri alveg hrikalegt, alla vega í augum íslenska ríkisins. En það að íslenski ríkisborgarinn tapi réttinum þegar hann fær ekki greiðslur í landinu sem hann dvelur í er algjörlega óforsvaranlegt. Það er það. Þegar lífeyrir er skertur vegna þess að einstaklingur hefur um tíma búsetu í öðru landi er það mismunun, klárlega. Það er verið að koma í veg fyrir eða nánast verið að meina einstaklingum eða gera þeim mjög erfitt fyrir að fara til annars lands og dvelja þar um tíma. Það eru settar það miklar skorður við því með þessum skerðingum að það gæti komið í veg fyrir að einstaklingar treysti sér einfaldlega til þess.

Ég myndi gjarnan vilja láta rannsaka það hvort þessi regla sé líka á hinum Norðurlöndunum. Ég get ekki séð það. Ég veit t.d. að almannatryggingar Noregs eru með skrifstofur á Spáni, þjóna þar tugþúsundum manna, gott ef það eru ekki 35.000 manns sem búa þar. Ég efast ekki um að önnur skandinavísk ríki séu líka með almannatryggingar þar.

Þetta frumvarp miðar að því að koma í veg fyrir þessa mismunun sem ég hef lýst hér. Því er lagt til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar. Það er réttlát skerðing ef hann fær réttindi erlendis en það er ekki réttlát skerðing ef hann fær ekki bætur þar. Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og allir ellilífeyrisþegar sem áður voru búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða. Mér skilst að það séu dómsmál í gangi núna, ef ég skil það rétt. En það breytir því ekki að við verðum að taka á þessu réttlætismáli með því að samþykkja þetta frumvarp. Ég sé engin rök fyrir því að gera það ekki. Við getum ekki búið þannig um hnútana að þeir sem njóta almannatrygginga geti ekki farið til annarra landa og búið þar, kjósi þeir það. Það er ekki verið að meina þeim beint að hverfa úr landi en það er klárlega verið að sjá til þess að þeir fái ekki rétt sinn, haldi réttindum sínum. Það er alveg klárt mál að í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum skal tryggður réttur í lögum til aðstoðar vegna sjúkleika, vegna örorku, vegna elli, vegna atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Við erum bæði með það ákvæði um réttinn og við erum með jafnræðisregluna og líka rétt fólks til að hverfa af landi brott.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og er eitt af þessum málum sem Flokkur fólksins lítur á sem kjarnastefnu flokksins og eitt af helstu baráttumálum. Ég trúi ekki öðru en að þetta muni verða samþykkt með tímanum. Við erum að flytja þetta mál núna í fjórða sinn en dropinn holar steininn. Ég vona að það fái góða meðferð í velferðarnefnd, fari í umsagnarferli og komi svo aftur til 2. umræðu og atkvæðagreiðslu.