154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að tala um frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda, afnám verðtryggingar lána til neytenda. Hvað er verðtryggingin? Jú, það er ósköp einfalt. Hún er hækja, eins og ég er með, til að halda uppi óeðlilegum og fáránlegum vöxtum og kostnaði fyrir almenning. Bankarnir, Seðlabankinn, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki — með verðtryggingu eru allir þessir aðilar komnir í samfesting með belti, til þess að halda samfestingnum uppi, og svo setja þeir axlabönd yfir svo að það sé alveg á hreinu að þeir tapi aldrei krónu, að þeir græði alltaf.

Við vitum hver umræðan hefur verið í sambandi við verðbólguna. Við byrjuðum að benda þessari ríkisstjórn á, þáverandi fjármálaráðherra, 2,7% verðbólgu, að nú þyrfti að fara að gera eitthvað. Menn höfðu áhyggjur, þið verðið að gera eitthvað, þetta er að fara af stað. Hver voru svörin: Nei, engar áhyggjur. Við erum með fullt af tækjum og tólum til að stoppa þessa verðbólgu. Við þurfum engar áhyggjur að hafa. Þetta heyrðist líka þegar hún var komin í 3,7% og 4,7%, koll af kolli. Alltaf sami söngurinn: Engar áhyggjur. Alveg upp í 10%. Og síðan: Verðbólgan er komin niður í 7% — stýrivextir, þeir eru enn í 9,2% eða 9,5%, þeir lækka ekkert. Þeir eru fljótir að hækka vextina um leið og verðbólgan fer af stað en rosalega lengi að draga þá niður. Hverjir eru það sem hagnast á þessu? Hverjir eru að græða meira en nokkru sinni fyrr? Bankarnir. Hverjir eru að borga? Hverjir eiga að borga þessa óstjórn? Unga fólkið okkar. Það er fáránlegt að við skulum vera með þannig kerfi að ungt fólk fer og kaupir sína fyrstu íbúð, fær greiðslumat, hefur efni á að borga 200.000 kr. á mánuði, en á einni nóttu, liggur við, er afborgun á mánuði komin yfir 400.000–500.000 kr.

Ég hef reynt í Norðurlandaráði að skýra þetta út fyrir erlendum aðilum. En það skilur þetta enginn. Menn hrista hausinn. Þetta getur ekki átt sér stað. Þeir myndu aldrei líða þetta, aldrei nokkurn tíma. En við látum þetta yfir okkur ganga. Hvers vegna gerum við það? Jú, vegna þess að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sér hag sinn í þessu. Þeir eru að verja fjármálakerfið, þeim er alveg skítsama um þá sem eru í þessu lánakerfi. Ég þekki þetta af eigin raun. Þegar ég var að kaupa mína fyrstu íbúð var yfir 100% verðbólga. Ég man eftir þeim dögum að ég labbaði með víxil, ég held að fáir viti hvað víxill er í dag, á þriggja mánaða fresti til að setjast á biðstofu hjá bankastjóra á biðilsbuxunum og biðja hann um að framlengja víxilinn í þrjá mánuði í viðbót. Svona var ástandið í 100% verðbólgu. En ástandið í dag, ég segi bara: Guð hjálpi þessum ungu krökkum okkar sem eru að reyna að fá húsnæði í dag. Ég horfi á lán svoleiðis stökkva upp. Einstaklingur sem var að reyna að kaupa sér sína fyrstu íbúð er með afborgun, það var búið að reikna það út, upp á 150.000–160.000 kr. en það er komið upp í 380.000 kr. Hvernig í ósköpunum á þessi einstaklingur að lifa? Jú, þeir fóru hver á fætur öðrum að reyna að selja, bjarga sér út úr þessu, eða leigja. Það dugar ekki einu sinni til.

Við erum með húsnæðislið inni í þessu kerfi sem er auðvitað algerlega fáránlegt. Húsnæði á Íslandi er lífsnauðsynlegt, húsnæði er ekki einhver munaður. Við verðum að gera eitthvað í þessu. Við getum ekki haft þetta svona og verðtryggingin er bölvaldur. Ég skil ekki seðlabankastjóra, hann var að hæla sér af því á Bylgjunni í gær að hann væri eiginlega búinn að ná öllum sem voru með óverðtryggð lán yfir í verðtrygginguna. Og honum fannst eiginlega bara sjálfsagt að lækka ekki vexti af því að það væri hugsanlega eitthvað þarna, hugsanlega kjarasamningar eða eitthvað, sem gæti verið að trufla. En eina truflunin á staðnum var seðlabankastjóri sjálfur, enda átti hann tiltölulega, að mér fannst, erfitt með að skýra út hvers vegna í ósköpunum hann væri ekki að lækka vexti, hvers vegna í ósköpunum hann notaði ekki sama meðalið á lækkandi verðbólgu og hann notar á hækkandi verðbólgu. En það er útilokað.

Ég segi: Við eigum að taka út, banna, þessa verðtryggingu, við verðum að gera það. Um leið og þeir eru búnir að því þá erum við líka komin með hvata til þess að finna upp annað kerfi í þessu. Og við höfum verið með lífeyrissjóði hérna undanfarna áratugi og þar er ávöxtunarkrafa 3,5%. Hefur það gengið upp? Jú, það hefur að stórum hluta gengið algerlega frábærlega. Við höfum meira að segja oftast verið með miklu meiri ávöxtun. Það koma sveiflur. Alveg eins og við vorum að tala um að raunvextir mættu ekki vera undir — það koma alltaf sveiflur. En það verður þá að tryggja að allir séu við sama borðið, að það sé ekki bara ríkisvaldið og bankarnir sem eru með belti og axlabönd og taka enga áhættu.

Almenningur á alltaf að taka alla áhættuna. Hann á alltaf að sitja uppi með svartapétur í þessu máli. Þess vegna segi ég: Það er löngu tímabært að við gerum eitthvað í þessu. Jú, ríkisstjórnin segist vera að skoða húsnæðisliðinn og taka hann út. Hugsið ykkur: Þessi verðtrygging, hvernig það hefur verið komið fram varðandi verðtrygginguna. Það er eins og þetta sé eitthvert náttúrulögmál. Þetta er allt okkar mannanna verk. Síðan koma þeir sem vilja fara í Evrópusambandið og segja: Já, þetta er allt krónunni að kenna, við verðum að taka upp erlenda mynt. Við þurfum ekkert að taka upp erlenda mynt. Við getum alveg búið til myntkörfu, ef við vildum, úr þeim útflutningstekjum sem við höfum, bara miðað við hvað við fáum í dollurum og evrum. Búið til myntkörfu, fest það — við getum alveg gert þetta án þess að breyta um mynt. En af hverju viljum við það ekki? Það er það sem við eigum að spyrja okkur um. Seðlabankastjóri var að hæla sér af því að hafa náð þeim sem voru óverðtryggðir yfir í verðtrygginguna, en þeir eru í slæmum málum. Þeir eru jú í góðum málum í augnablikinu en þeir þurfa að borga þetta. Það skiptir ekki máli, á endanum borgar þú meira í gegnum verðtrygginguna en óverðtryggt vegna þess að verðtryggingin færist alltaf aftast, hún fer alltaf aftast á lánið, það bara hækkar og hækkar. Síðan skeður það að eftir tvö til þrjú ár þá er afborgunin komin í það sama. Þetta heitir að elta skottið á sjálfum sér, alveg eins og hundar og kettir snúast í hringi. Þarna er verið að eltast við skottið á sjálfum sér.

Ég segi bara: Vonandi fer þessi ríkisstjórn að sjá ljósið, hættir að trúa því að hægt sé að trúa á að verðtryggingin sé af sama flokki og einhver trúarbrögð, að guð almáttugur hafi búið hana til, að hún sé ekki mannanna verk heldur eitthvert náttúruundur. Hún er það ekki. Við getum breytt þessu með einu pennastriki, ef menn vilja. Ef ríkisstjórnin vildi þá gæti hún verið búin að breyta þessu. Hún gæti líka verið búin að hjálpa þessu unga fólki sem er að sligast undan afborgunum ef hún vildi. Hún vill það ekki. Hún er að berjast fyrir bankana, enga aðra. Fjármagnseigendur, aðila sem þeir styðja, hún berst fyrir þá en hinir mega sitja eftir. Ég á eftir að sjá hvernig þeir munu taka á verðtryggingu á húsnæði, hvernig þeir munu plástra það. Þeir gera það yfirleitt, minnka þetta eitthvað pínulítið, plástra, draga úr skerðingum, eins og það er kallað í almannatryggingakerfinu, en koma ekki með neinar afgerandi lausnir, því miður.