154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að opna þetta góða og stóra pandórubox Samfylkingarinnar að ganga í Evrópusambandið. Jú, það getur vel verið að hann trúi því, eins og ríkisstjórnin trúir því að verðtryggingin sé náttúrulögmál, að það sé eitthvert náttúrulögmál að við munum hafa það ógeðslega gott og flott ef við förum í Evrópusambandið. En ég hef enga trú á því. Við þurfum þess ekkert. Ég hef séð þetta bákn Evrópusambandsins og heimsótt höfuðstöðvar þess í Brussel og þetta er skelfilegt bákn sem ég vona að við höfum vit á því að sleppa. Þó að við gætum kannski einhvers staðar fengið eitthvað pínulítið gott út úr því þá held ég að við fáum meira slæmt út úr því en gott. Jú, það er í sjálfu sér rétt þegar hann segir að hægt sé að stjórna myntkörfu en þá er líka hægt að ganga þannig frá því að það sé erfitt að eiga við það. Við getum t.d. sagt að ekki yrði hægt að breyta því nema á tveimur þingum eða eitthvað slíkt, ef við bara ákveðum að gera hlutina rétt.

Ef við færum í Evrópusambandið eins og það myndi leysa öll okkar vandamál — ég hef enga trú á að það geti átt sér stað, langt í frá. Við verðum og eigum að leysa þetta sjálf. Við eigum að tryggja að krónan virki. Við getum það ef við viljum, það þarf bara viljann til þess. Ef við hættum að leika okkur að vöxtum og verðbólgu og komum á stöðugleika. En það þarf vilja til og þess vegna segi ég: Það þarf kannski nýja ríkisstjórn, öðruvísi samsetta, til að gera það. Ég vona að það verði niðurstaðan í næstu kosningum.