154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:47]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég get algerlega tekið undir það. Ábyrg efnahagsstjórn skiptir gríðarlega miklu máli og sjálfsagt öllu. Það er líka alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, við höfum gengið í gegnum áföll sem voru óvænt, Covid-19 er þar kannski afdrifaríkast og síðan auðvitað þessi hrikalegu áföll sem við erum að ganga í gegnum núna með eldgos á Reykjanesskaga og það þarf að rýma heilt þorp. Það er bara hárrétt, efnahagsstjórn skiptir miklu máli þegar kemur að því að bregðast við slíkum áföllum. En því miður er staðan hér á landi sú að við erum með stýrivexti sem eru miklu hærri en stýrivextir Seðlabanka Evrópu. Vissulega er Evrópusambandið í heild sinni ekki að eiga við eldgos eða miklar náttúruhamfarir eins og við, en stýrivextir voru löngu fyrir þann tíma orðnir þeir langhæstu á byggðu bóli og erum við þar í flokki með þeim ríkjum þar sem efnahagsástandið er hvað verst. Það er auðvitað afleiðing af þessum gjaldmiðli sem við búum við. Ég nefndi það í minni ræðu að ég teldi að svar okkar við því og langeðlilegast fyrir okkur, sem fullvalda þjóð á þeim stað í heiminum sem við erum stödd í Evrópu, sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og inni á þessum frjálsa og opna markaði Evrópusambandsins, væri að stíga það skref til fulls og taka þátt í þeim sameiginlega gjaldmiðli sem þar hefur verið komið á fót. Það er langeðlilegasta skrefið fyrir þjóð í okkar stöðu. En það eru auðvitað önnur skref til. Við gætum tekið upp dollar eða sterlingspund en ég held að það væri dálítið öðruvísi aðgerð og við myndum aldrei fá aðild að seðlabönkum Bandaríkjanna eða Bretlands.