154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:57]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn hlustaði á eitthvað af því sem ég fór í gegnum í ræðunni áðan, t.d. allt það sem dr. Ólafur Margeirsson taldi upp varðandi verðtrygginguna og afleiðingar hennar og hann minntist ekki einu einasta orði á gjaldmiðilinn, ekki einu orði. Þar fyrir utan sýndi hv. þingmaður því miður fram á að hann er ekki alveg að skilja hvað verðtryggingin er vegna þess að hún er ekki bara ákveðið form af vöxtum. Verðtrygging er flókið afleiðulán. Hún er það flókið afleiðulán að ef ég færi í Kauphöllina hérna og myndi vilja gerast fjárfestir á sömu kjörum og eru í boði, með öllu því sama og stendur í samningum um verðtryggð lán, verður sagt: Nei, þú mátti ekki taka svona lán og gera þetta með þessum hætti af því að þú ert ekki fagfjárfestir. Þetta er lán sem er eins og snjóbolti. (Forseti hringir.) Það vefur upp á sig. Þetta eru ekki bara vextir, þetta er gildra sem fólk losnar aldrei úr.