154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

105. mál
[14:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Mig langar að fagna þessari tillögu sem snertir á mikilvægum aðgerðum í alþjóðamálum, því að Ísland taki þátt með fjöldanum öllum af öðrum ríkjum að vinna gegn aukinni hernaðarógn í heiminum. Staðan er nefnilega sú að eiginlega þvert á það sem við hefðum flest trúað fyrir ekkert löngu síðan þá eykst ógnin af kjarnavopnum ár frá ári þessi dægrin. Vopn sem við sem mannkyn héldum að væri búið að koma ákveðnu taumhaldi á eru farin að skjóta upp kollinum æ oftar í umræðum um átök sem eiga sér stað. Hér nefndi hv. flutningsmaður málsins þá staðreynd að forseti Rússlands nefndi í tengslum við hótanir sínar í garð Úkraínu áður en hann réðst þar inn fyrir tveimur árum möguleikann á því að nota það sem kallað er lítil kjarnavopn, sem eru í rauninni alveg sömu gereyðingarvopnin og þau stærri. Lítil kjarnavopn valda það miklum skaða að það er ekki hægt að beita þeim öðruvísi en að vera í rauninni á skjön við alþjóðalög. Sá mannlegi harmleikur, þær þjáningar, þau dauðsföll og sá skaði sem vopnin valda, óháð því hvort um er að ræða herlið eða almenning, er af þeim skala að beiting kjarnavopna getur aldrei átt sér stað án þess að alþjóðalög séu brotin og þær reglur sem gilda um hernað. En þarna stóðum við fyrir tveimur árum og hlustuðum á Vladímír Pútín tala eins og það væri bara allt í lagi að sleppa einni og einni sprengju á vígvöllinn eins og hér væri um hver önnur vopn að ræða, sem þau eru svo sannarlega ekki.

Síðan heyrðum við ísraelskan hershöfðingja fyrir nokkrum vikum segja frá möguleikanum á að nota lítil kjarnavopn í tengslum við árásir Ísraelshers innan Gaza. Sá var sem betur fer fljótt kveðinn í kútinn af sér hærra settu fólki innan ísraelska stjórnkerfisins, en allt að einu sýnir þetta að freistingin er til staðar þegar fólk býr yfir þessum vopnum í vopnabúri sínu og möguleikinn á því að beita þeim er of geigvænlegur til að við sem siðað samfélag getum látið þar við sitja. Við getum ekki leyft því að vera einhver hluti af eðlilegu orðfæri að tala eins og megi beita kjarnavopnum í nokkru einasta tilfelli.

Þess vegna er svo mikilvægt að nýr samningur leit dagsins ljós, til þess að fylla í þá mynd sem fyrir var. Alþjóðasamningar sem náðist að setja á áratugunum áður snerust um að beisla aðeins útþenslustefnu kjarnorkuveldanna. Það sést nú kannski ágætlega á því að íslensk þýðing á svokölluðum NPT-samningi er samningur um að hefta útbreiðslu kjarnavopna. Lítið er snert á þeim sem þegar eiga þau en til annarra ríkja mega þau helst ekki breiðast. Þess vegna gerðu kjarnorkuveldin skiljanlega allt hvað þau gátu til að berjast gegn þessum nýja samningi, sem snýst um að draga línu í sandinn og segja: Hingað og ekki lengra. Nú bönnum við þessi vopn í höndum allra. Og það varð línan hjá NATO og Atlantshafsbandalagið gaf greinilega þau skilaboð til aðildarríkja sinna að berjast gegn þessum samningi með kjafti og klóm, sem þau og gerðu þangað til ekki varð barist lengur og 50 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna höfðu fullgilt hann. Þar með varð hann að gildum samningi Sameinuðu þjóðanna fyrir þremur árum síðan, árið 2021.

Þá breyttu NATO-ríkin, Ísland þar á meðal, um strategíu og fóru að hunsa samninginn. Þau gera það með því að mæta ekki á þessa aðildarríkjafundi, sem haldnir hafa verið í tvígang, með nokkrum undantekningum þó. Ég hef nefnt þær nokkrum sinnum hér í sal og langar að gera það aftur vegna þess að mér þykir svo grætilegt að Ísland sé ekki í þeim hópi. Á fyrsta aðildarríkjafundi samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum mættu að mig minnir fimm aðildarríki NATO, þar á meðal Þýskaland og Noregur. Það ætti eiginlega að duga Íslandi til að mæta. Ef Þýskaland, risinn innan Evrópu, ákveður að óhætt sé að mæta og Noregur, sem í flestum málum er eins og Ísland á alþjóðavísu; ef þessi tvö ríki telja óhætt að mæta sem áheyrnarfulltrúar á þennan fund ætti Ísland að geta siglt í kjölfarið. Holland mætti eftir að þingið þar í landi hafði samþykkt ályktun þess efnis. Þarna var Belgía — því er stolið úr mér hvert fimmta landið var en þarna voru líka Svíþjóð og Finnland og mörg önnur Evrópuríki sem við gjarnan miðum okkur við. Svo ef við tökum Norðurlandavinkilinn þá voru á þessum fyrsta aðildarríkjafundi þrjú af sjálfstæðum ríkjum Norðurlandanna. Ísland og Danmörk sátu heima í fýlu og hefðu betur mætt.

Annar aðildarríkjafundurinn var síðan haldinn í New York rétt fyrir jól. Þar þynntist aðeins hópur NATO-ríkjanna en enn þá mættu Noregur og Þýskaland til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, til að taka þátt í samtalinu.

Það er svo sem ekki svo að Ísland sitji aðgerðalaust á alþjóðasviðinu þegar kemur að þessum málum. Fulltrúar utanríkisþjónustunnar mættu á endurskoðunarráðstefnu NPT-samningsins síðasta sumar og lögðu gott til málanna en sú ráðstefna fór út um þúfur vegna þess að Rússland tók það að sér í þetta skiptið að setja sand í tannhjólin. Kjarnorkuríkin vilja ekki að NPT-samningurinn þróist. Síðan var reyndar ákveðið gleðiefni í haust þegar fyrsta nefnd Sameinuðu þjóðanna, nefndin sem fjallar um mannréttindamál, samþykkti ályktun sem Kíribatí og Kasakstan áttu frumkvæði að sem snerist um afleiðingar kjarnorkutilrauna og beitingu kjarnavopna, þar sem afleiðingar þess gegn óbreyttum borgurum voru sérstaklega dregnar fram í dagsljósið. Ísland studdi þá tillögugerð og er það góðs viti vegna þess að þar erum við í raun komin að kjarnanum í þessum nýja samningi. Hann snýst nefnilega um að viðurkenna þjáningar þeirra sem hafa orðið fyrir því að tapa heilsu, deyja eða missa búsvæði eða húsnæði vegna tilrauna, vegna námugraftar og beitingar kjarnavopna. Þó að við tölum gjarnan um fólkið sem dó í Hírósíma og Nagasaki þá gleymast gjarnan öll hin; frumbyggjaþjóðirnar í Kyrrahafi sem eru fórnarlömb tilrauna Frakka og Breta, fólkið sem býr á sléttunum í Bandaríkjunum og er fórnarlamb tilrauna Bandaríkjamanna, fólk í dreifðum héruðum Kanada sem býr við gríðarlega mengun vegna úrannáma þar. (Forseti hringir.) Allt þetta fólk á skilið réttlæti og það að styðja við samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum er gríðarlega mikilvægt verkfæri til þess að vinna í átt að því réttlæti. Þar á Ísland svo sannarlega að vera og ég vona, herra forseti, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur láti af þeirri vitleysu að hunsa þennan samning.