154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

breytingar á löggjöf um hælisleitendur og aðstoð við fólk frá Gaza.

[15:19]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Svo að það komi skýrt fram þá hefur eðlilega farið fram umræða á milli ríkisstjórnarflokkanna um verndarkerfið í heild sinni og hvað tekur við þegar fólk er búið að fá hér vernd, sá fjöldi sem hingað kemur, hvort sem er í gegnum verndarkerfið eða sem aðrir innflytjendur, vinnuafl. Að sjálfsögðu ræðum við það. Við ræðum það út frá þeim fjölda sem hingað kemur, sama úr hvaða átt það er. Við ræðum það út frá þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag sem snýr að húsnæðismálum, skólamálum og aðlögun, t.d. í gegnum það að læra íslensku. Ég vil nefna líka að þau sem hingað koma fái mat á og metna til verðleika reynslu sína og menntun. Varðandi öryggismál þá er það kannski meira á sviði dómsmálaráðherra að svara fyrir þau mál, sem snúa væntanlega að því sem við gætum tengt við flugvöllinn og þegar fólk kemur hingað til lands, en ég treysti mér ekki til að fara í djúpa umræðu um það akkúrat núna, eða í þessu stutta svari.