154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

upplýsing um stöðuna á Suðurnesjum.

[15:51]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Neyðarstigi var lýst yfir af hálfu almannavarna 8. febrúar og hafa fyrirtæki og heimili verið heitavatnslaus eftir að eldgos tók í sundur Njarðvíkuræð. Unnið hefur verið myrkranna á milli við að koma heitu vatni aftur á Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga og samvinna og samheldni íbúa verið aðdáunarverð. Það má eiginlega segja að það sé hreint kraftaverk að heitt vatn sé nú að flæða til svæðisins. Sem íbúi í Reykjanesbæ þekki ég frá fyrstu hendi þær hamfarir sem hafa gengið yfir Reykjanesskagann en þetta er, og ég vil segja það hér, viðvarandi náttúruvá. Ég vil því þakka forseta fyrir að vel hafi verið tekið í bón mína um að viðkomandi ráðherra eða ráðherrar komi fyrir þingið og upplýsi okkur um stöðuna, hvað hefur verið farið í, hvað er fram undan og hvernig við getum tryggt öryggi íbúa og innviða á svæðinu. Það er ástæðan fyrir að ég kem hér upp og ég vænti þess að þetta verði sett á dagskrá þingsins hið allra fyrsta enda mjög mikilvægt að sú umræða fari fram hér á Alþingi.