154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

115. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Enn á ný kem ég hér upp, formaður Flokks fólksins, og er að taka utan um eldra fólkið okkar. Þetta er eitt af sennilega 16, frekar en 18 þingmannamálum Flokks fólksins sem við flytjum á Alþingi og eru til hagsbóta fyrir eldra fólk. Hér er á ferðinni tillaga til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Öðrum þingmönnum var einnig boðið að vera með á þessu máli en þáðu það ekki. Með leyfi forseta ætla ég að fara yfir tillöguna nokkuð vel.

Hér segir að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem kveði á um eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, að ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.

Ég tala af eigin reynslu þegar ég segi að pabbi minn var hjá mér 91 árs gamall í rúm tvö ár í Reykjavík, þrátt fyrir að hann vildi nú frekar vera heima fyrir norðan í firðinum fagra, í kyrrð og fegurð fjalla þar sem hann þekkti sig og hefur alist upp alveg frá blautu barnsbeini. Það er mikilvægt þegar við erum orðin fullorðin, komin jafnvel á tíræðisaldur og erum farin að verða fyrir ákveðinni gleymsku og heilabilun, jafnvel alvarlegri heilabilun — þá skiptir miklu máli upp á okkar líðan að við séum umvafin því sem við þekkjum og að okkur líði vel í því umhverfi sem við erum í þegar við göngum síðasta æviskeiðið. Það er einstaklega dapurt að vera alltaf einhvers staðar fastur í þessu kerfi sem vinnur allt of hægt og allt of illa.

Í öðru lagi er kveðið á um það í þessari þingsályktunartillögu að færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en tíu dögum eftir að umsókn um það berst. Það virðist brenna við að það sé látið bíða. Það er kannski sumarfrí í sex, átta eða tíu vikur, eða ég veit ekki hvað, eða einfaldlega ert þú svo aftarlega í röðinni að það er í rauninni nóg að gera. Hugsanlega vantar þarna sérstakan stuðning til starfsfólks svo að þetta gangi betur og hraðar og sé skilvirkara.

Í þriðja lagi er tekið fram í þessari þingsályktunartillögu að öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en tíu daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými. Ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis á haustþingi 2024.

Hver kannast ekki við hugtakið fráflæðisvandi? Við höfum nú kosið í Flokki fólksins að tala frekar um útskriftarvanda því að mér finnst það nú frekar kuldalegt að fullorðna fólkið okkar sé einhver fráflæðisvandi. En hugtakið náttúrlega felur það í sér að flæðið frá spítalanum er ekki nógu skilvirkt þegar einstaklingurinn er í rauninni búinn að njóta allrar þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita honum. Einhverra hluta vegna er þetta blessaða kerfi þannig úr garði gert að þessir einstaklingar, fullorðna fólkið okkar, hugsið ykkur, eru látnir daga uppi á Landspítalanum. Ég man að fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar við vorum að fara á alls konar ráðstefnur og fundi sem okkur þingmönnum og þeim sem voru að bjóða sig fram í kosningum var boðið á, kom í ljós að sá einstaklingur sem vitað var um að hafði verið lengst að bíða eftir úrræðum hafði verið yfir 700 daga á Landspítalanum eftir að ekkert var hægt að gera frekar fyrir hann. Það var ekkert sem greip hann og ekkert sem tók á móti honum, ekki neitt. Við skulum átta okkur á því að þetta er sennilega eitt dýrasta dvalar- og hjúkrunarrými sem til er, akkúrat þarna á Landspítala, um leið og þessi stífla og flöskuháls kemur í veg fyrir það að 100 rúm séu nýtt í annað, jafnvel nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það hlýtur náttúrlega að vera svolítið undarlegt, og það sjá allir, að þú liggir inni á sjúkrahúsi og ekkert sé hægt að gera meira fyrir þig, þú sért tilbúinn að útskrifast en það er bara enginn tilbúinn að taka á móti þér og það eru engin úrræði.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu sem við höfum mælt fyrir í Flokki fólksins á 149., 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi, 75. mál, kemur fram að málið hefur náttúrlega alls ekki náð fram að ganga og er nú lagt fram eina ferðina enn.

Áður fjallaði tillagan einnig um rétt maka til samvistar á stofnun en við ákváðum, í stað þess að leggja það fram í þingsályktunartillögu, að koma með það í formi lagafrumvarps. Þess vegna höfum við klofið það frá þingsályktunartillögunni sem slíkri og höfum við það algerlega aðskilið.

Þrátt fyrir skýrar vísbendingar um þörf á fleiri hjúkrunarrýmum og fögur fyrirheit um uppbyggingu hefur lítið gerst undanfarin ár. Árið 2007 voru hjúkrunarrými tæplega 2.700 en dvalarrými ríflega 700. Árið 2019 voru almenn hjúkrunarrými á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins 2.648 en dvalarrýmin hins vegar — við töluðum bara um elliheimili, dvalarrýmið okkar, sem var annað en hjúkrunarrými — voru bara 179. Þarna hafði þeim stórlega fækkað. Dvalarrýmum hafði fækkað um á sjötta hundrað á þessu tímabili. Því hefur verið þessi þróun að taka dvalarrýmin og breyta þeim í hjúkrunarrými og það er í rauninni þrisvar sinnum dýrara að reka hjúkrunarrými en dvalarrými.

Ég sé að hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er hér í salnum ásamt fleiri hv. þingmönnum sem eru náttúrlega svo léttir á því og kornungir að þeir þurfa ekki endilega að líta strax í áttina að dvalarrýmum eða hjúkrunarrýmum. En ég myndi nú halda að ég og hv. þm. Guðmundur Ingi hefðum kannski verið farin að leggja drög að því að fara bara í dvalarrými, ekki hjúkrunarrými af því að við erum svo hress, og eftir kannski tíu ár gæti maður bara haft það svolítið náðugt á síðasta æviskeiðinu og sótt um að komast inn á dvalarrými. En nei, þau eru tæplega í boði lengur, því miður. Mér finnst þessi þróun hafa verið í öfuga átt, hvorki meira né minna. Það er í rauninni ekkert mark tekið á því hér hvernig þróunin er hjá okkur. Við erum að eldast. Þjóðin er að eldast. Við fáum að lifa lengur af því að við erum heilbrigðari og hraustari, borðum væntanlega meira af spínati og gulrótum og þess vegna erum við, eins og sjá má, mun hressari og heilbrigðari fram eftir aldri.

Á milli áranna 2019 og 2022 fjölgaði hjúkrunarrýmum um 142, hugsið ykkur. Á þessu árabili 2019–2022 fjölgaði hjúkrunarrýmum ekki nema um 142 en dvalarrýmum þá fækkaði um 50. Enn erum við að sjá þessa tilhneigingu að fækka dvalarrýmum og fjölga hjúkrunarrýmum, og fjölga þeim í rauninni allt of lítið. Þessi fjölgun rýma hefur því miður ekki leitt til styttri biðtíma fyrir fólk með færni- og heilsumat. Því má álykta að við átak ríkisstjórnarinnar í fjölgun hjúkrunarrýma hafi ekki verið tekið nægilegt mið af fyrirséðri öldrun þjóðarinnar. Eins og ég segi þá liggur það ljóst fyrir. Ég man ekki betur en að alveg frá því að ég var kjörinn fulltrúi á hinu háa Alþingi Íslendinga hafi verið um það rætt að öldruðum fjölgaði hratt, að við yrðum eldri og því þyrfti að grípa til ákveðinna úrræða vegna þess. En því miður byggir það frekar á einhverjum sandi og hefur ekki náð fram að ganga. Þeim sem biðu t.d. eftir hjúkrunarrýmum fjölgaði um 60% á landsvísu frá því í janúar 2014 fram í janúar 2018. Á þessu fjögurra ára tímabili fjölgaði fólki hvorki meira né minna en um 60% á landsvísu, þeim sem voru að bíða eftir því að fá að komast inn á hjúkrunarrými. Við skulum átta okkur á því að þeir sem eru komnir með færni- og heilsumat um það að eiga rétt á því að fá að vera í hjúkrunarrými er fólk sem í rauninni þarf flest að fá alls konar aðstoð. Það þarf aðstoð við að baða sig og stundum við að klæða sig. Það er ekki að öllu hraust og maður er oft orðinn ansi mikið veikur þegar maður loksins kemst inn á hjúkrunarrými. En þarna fjölgaði umsóknum um hjúkrunarrými um heil 60% á árunum 2014–2018 en á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu lengur en 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%. Frá árinu 2014 til 2021 lengdist meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými úr 91 degi í 136 daga.

Árið 2014 þá létust — nú skulum við sjá hvernig þetta er, hvernig þetta biðlistakerfi er byggt upp og hvernig búið er að draga lappirnar í því að taka utan um okkur þegar við erum að ganga síðasta æviskeiðið. Hvers lags skömm er að því að árið 2014 dóu 114 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými? Árið 2015 var það 141, 178 árið 2016 og 183 árið 2018. Við sjáum þessa þróun, hún er öll í þá átt að það deyja fleiri á biðlista eftir því að komast á hjúkrunarheimili. Þessari þróun verður að snúa við. Nú erum við og þingið enn eina ferðina að fela framkvæmdarvaldinu að koma með þessa heildstæðu löggjöf sem á að taka á öllu þessu. Við sjáum það líka í hendi okkar, hvernig er hægt að réttlæta það að borga jafnvel átta sinnum meira fyrir að einstaklingur skuli vera fastur inni á Landspítala frekar en að byggja upp alvöruþjónustu fyrir fólkið okkar? Að sjálfsögðu eigum við að gera það. Að sjálfsögðu eigum við að sýna fólki þá virðingu að taka utan um það af öllu hjarta og gera allt sem í okkar valdi stendur til að við getum haft það gott í samfélaginu eins og kostur er, að utan um okkur sé tekið.

Það á enginn einasti einstaklingur að þurfa að vera sendur heim, t.d. af sjúkrahúsi, segjast sjálfur geta farið heim en vera svo aleinn og félagslega einangraður. Það deyja um 25 eldri borgarar á hverju ári einir heima. Að meðaltali ríflega tveir á mánuði, allan ársins hring. Sumir eru búnir að vera dánir ansi lengi áður en nokkur kemur að athuga um þá. Svona er Ísland í dag, svona er umhyggjan okkar fyrir okkar elstu bræðrum og systrum í dag. Flokkur fólksins er ítrekað búinn að mæla fyrir því að fá hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk sem myndi kortleggja allt þetta, myndi taka utan um okkur þegar við værum orðin þetta fullorðin og komin á síðasta æviskeiðið þannig að við yrðum aldrei félagslega einangruð og enginn vissi að við værum til. Svoleiðis er ekki gott samfélag, bara alls ekki. Svoleiðis er einfaldlega samfélag sem lætur sér á sama standa. Við í Flokki fólksins viljum ekki svoleiðis samfélag. Við viljum ekki samfélag sem lætur sér á sama standa.

En samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis eru að jafnaði rúmlega 400 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými. Fyrst þetta er þingsályktunartillaga er ég nú varla byrjuð á þessari fínu ræðu. En hvað um það, við munum halda áfram að berjast og við trúum því að með samhentu átaki og raunverulegum vilja sé okkur ekkert að vanbúnaði. Tökum bara utan um fólkið okkar og sýnum til hvers við erum hér á hinu háa Alþingi. Við erum hér fyrir samfélagið í heild sinni og við erum hér til að aðstoða og hjálpa öllum, ekki bara sumum.