154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

115. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. En hvernig í ósköpunum ætlum við að fara að því með því að hafa tugi ef ekki upp undir hundrað einstaklinga fasta inni á sjúkrastofnun? Það getur ekki verið gott og maður bara skilur það ekki þegar eldri borgari sem er búinn að fara á sjúkrahús og fá þá þjónustu sem hann þarf þar á að halda þarf að vera þar ekki bara í viku heldur í mánuð og jafnvel upp undir ár, fastur inn á sjúkrahúsi. Félagslega og á allan hátt er það algjörlega ólíðandi. Það getur ekki verið annað en ömurleg tilhugsun að eyða síðustu ævikvöldum sínum við þannig aðstæður.

Það er oft alveg stórfurðulegt hvernig við höfum komið fram við aldrað fólk og það er vitað að við erum með þennan hóp inni á sjúkrahúsum og hvað kostnaðurinn á bak við þetta er mikill. Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum er þetta látið viðgangast? Hvers vegna í ósköpunum dregur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn lappirnar við að koma upp hjúkrunarheimilum? Það hlýtur að vera einhver ástæða, ég sé hana ekki því það hlýtur alltaf að vera hagur ríkissjóðs og samfélagsins að við séum ekki með aldraða einstaklinga í dýrasta úrræðinu, sem er inni á sjúkrastofnunum, þannig að eitthvað er bogið við stjórnun á þessu. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland þá bíður fólk á lista, eiginlega hálfgerðum dauðalista, eftir því að fá aðgang að hjúkrunarheimili. Það getur ekki verið líðandi, þetta á bara að vera óþolandi. Maður heyrir að það sé verið að útskrifa aldraða einstaklinga af sjúkrahúsi heim til sín í von um að aldraður maki jafnvel hugsi um hann. Það er bara ávísun á hálfgerðan hrylling. Síðan er líka oft verið að reyna að treysta á það að börn hugsi um aldraða foreldra sína eða taki að sér þetta hlutverk. Það gengur ekki heldur upp. Þetta er ekki að ganga upp. Það hlýtur að vera eitt það hryllilegasta sem maður getur hugsað sér að þurfa að heimsækja foreldra sína, kannski aldraða, vikum, mánuðum saman á sjúkrastofnun. Ég man að fyrir nokkrum árum síðan var einstaklingur útskrifaður af sjúkrahúsi og sendur heim til sín og hann var bara einn. Þegar loksins var komið í heimsókn til hans til að athuga hvernig ástandið væri hjá honum þá kom í ljós að það eina sem til var í ísskápnum var maltflaska og lýsi. Ég held að þetta lýsi mjög vel hvers lags ógöngum við erum í.

Oft hefur ein af skýringunum verið með hjúkrunarheimilin að það vanti starfsfólk. Það hlýtur líka að segja okkur að það er eitthvað bogið við það kerfi sem við erum með, heilbrigðiskerfið okkar, þegar við getum ekki haldið í það fólk sem hefur menntað sig, eins og hjúkrunarfræðinga, það skuli ekki vera hægt að gera kjör þeirra og aðstæður þannig að þær vilji vinna við það starf. En það virðist heldur ekki eiga að gera eitthvað í þeim málum hjá þessari ríkisstjórn heldur virðist alltaf vera tekin sú stefna að það eigi bara að mennta fleiri. En það auðvitað segir sig sjálft að það skilar sér ekkert frekar ef kjör og aðstæður eru ekki til staðar til þess að fólk vilji vera á þeim stað.

Öldruðum fjölgar hratt og við verðum að átta okkur á því að við leysum ekkert vandamál með t.d. heimahjúkrun. Það bara virkar ekki. Það getur virkað í ákveðnum tilfellum en í flestum tilfellum verðum við að sjá til þess að þeir sem eru komnir með það mat að þeir þurfi á hjúkrunarrými að halda fái það, það verði bara drifið í því að gera þetta eins fljótt og auðið er vegna þess að við erum að brenna inni með þetta. Ef maður horfir á ástandið eins og það er núna og hefur verið og höldum að það sé ásættanlegt þá getum við bara ímyndað okkur hvernig þetta verður eftir nokkur ár af því að við vitum að öldruðum fjölgar hratt. Þess vegna þarf að bregðast hratt við og gera eitthvað.

Ég vona heitt og innilega að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt. En það er auðvitað mjög ólíklegt vegna þess, eins og kemur hér fram, að þetta er í fimmta eða sjötta sinn sem þetta mál er lagt fram og það segir okkur bara að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á því að taka á málefnum aldraðra. Það er ekki eitthvert forgangsmál hjá þeim og þau ætla sér ekkert að spýta í lófana. En maður vonar alltaf að þau sjái ljósið og átti sig á því að það er ekki sniðugt að vera með eldri borgara í dýrasta úrræði sem hægt er að hafa þá, inni á sjúkrastofnunum. Það er fáránlegt.