154. löggjafarþing — 71. fundur,  13. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ríkið greiddi 27 milljarða í leigu á húsnæði árið 2023. Þetta eru háar tölur og ég tel að þarna sé svigrúm til þess að fara betur með opinbert fé og ná meiri hagræðingu með samnýtingu. Mér varð hugsað til þingsályktunartillögu sem ég lagði fram á sínum tíma sem fjallaði einmitt um þetta, hvernig nýta mætti hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að stuðla að hagræðingu, minnka yfirbyggingu og auka sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis o.s.frv. Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir hafi ekki alltaf verið samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á sínum tíma þar sem m.a. var óskað eftir yfirliti yfir það hversu oft á síðustu árum ríkið hefði gert samninga við aðra en lægstbjóðendur, sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hefði verið samið við lægstbjóðanda. Svarið staðfesti það að í tíu tilfellum hafði ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafði lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar. Gott og vel, en þetta eru ansi þunn rök þegar við berum þetta saman við meðferð á opinberu fé.

Svarið var því tilefni til seinni fyrirspurnar minnar um sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem þá var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarað og í ljósi þess sem ég hef farið yfir þá tel ég fullt tilefni til að endurvekja hana og fá þá upp á yfirborðið hvað það er sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamninga við aðila sem buðu hærra verð.