154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég meina það sem ég segi hér að ég er með mál á þingmálaskránni og er tilbúinn að koma með það. Ég er að efna til breiðari umræðu heldur en áður var gert með því að koma með skýrsluna og óska eftir því að nefndin taki hana til skoðunar og umfjöllunar og ég kalla eftir því að fá álit frá utanríkismálanefnd á þessum álitamálum sem vissulega voru rædd nokkuð hér í fyrra en ég er sammála hv. þingmanni að hefðu betur verið rædd til enda. Það er vísað í einhvern ágreining milli stjórnarflokkanna. Allir stjórnarflokkarnir höfðu samþykkt málið og afgreitt til þingsins. Það getur vel verið að það hafi verið uppi sjónarmið sem bara komust aldrei almennilega inn í opinbera umræðu sem ég þekki ekki til hlítar en ég er mikill áhugamaður um að taka breiða umræðu um þessi mál og vil gjarnan hlusta eftir sjónarmiðum. Telji menn t.d. að málatilbúnaður ESA sé bara á sandi reistur þá er bara sjálfsagt að kynna það (Forseti hringir.) hér í þinginu og að við skoðum það.