154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo mikið í gangi í stjórnmálunum núna að ég verð að byrja á því að biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir mér hvað sé eiginlega að gerast hérna. Hvers vegna kemur hæstv. ráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og kynnir einhvern rökstuðning sem hljómar nákvæmlega eins og rökstuðningur Viðreisnar í þessu máli og reyndar öðrum Evrópumálum að undanförnu? Ekki kannski Samfylkingarinnar, hún er orðin svona hófsamari í Evrópumálunum. En hér kemur bara heilt plagg með Viðreisnarskýringunum á því hvers vegna við eigum að gefa eftir gagnvart Evrópusambandinu og það í þessu stóra grundvallarmáli sem meira að segja dómarar, meira að segja hæstaréttardómari, hafa bent á að standist ekki stjórnarskrá og það í máli sem utanríkisráðherra í sömu ríkisstjórn, reyndar á fyrra kjörtímabili, hafði reynt að halda uppi vörnum gagnvart Evrópusambandinu með, útskýra hvers vegna við ættum ekki að innleiða þetta. Og nú kemur annar hæstv. utanríkisráðherra og virðist vera búinn að skipta um lið. Er ríkisstjórnin búin að skipta um lið?