154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í umræðu sem ég var að tala um að ætti kannski betur heima þegar maður kemur með tillögu um breytingar á innleiðingu bókunar 35. En gott og vel. Hér segja menn að því sé haldið fram að EES-löggjöfin sé einhvern veginn betri. Ég hef aldrei sagt að hún sé eitthvað betri. Ég er einmitt búinn að vera að flytja fyrir því rök hér að við höfum allan rétt til að setja þær reglur sem okkur sýnist. Það er það sem tveggja stoða kerfið gengur út á. Það er það sem við sögðum í frumvarpinu sem lá fyrir þinginu í fyrra, að ef Alþingi kýs að setja reglur sem ganga þvert á EES-skuldbindingar þá hefur Alþingi til þess fullt svigrúm og getur gert það hvenær sem er og tekur þá bara afleiðingunum af því í EES-samstarfinu. Það er ekki að fullu í samræmi við skuldbindingu sem felst í bókun 35 en það breytir því ekki að Alþingi hefur allan rétt til þess. Þetta er algjört grundvallaratriði. Það var þetta sem ég átti við þegar ég sagði að sumir virtust misskilja þetta mál með þeim hætti að hér ætti að setja einhverjar reglur sem tryggðu að EES-rétturinn gengi alltaf framar vilja Alþingis. Það er bara ekki þannig. Það er ekki það sem við erum að ræða hér og ég er aldrei þeirrar skoðunar að Alþingi eigi ekki að eiga síðasta orðið, þvert á móti: Alþingi verður alltaf að eiga síðasta orðið.