154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skýrslu. Hún er skýr og þarf að ræðast líka. Ég held að það hafi kannski að mörgu leyti verið skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti miðað við hvernig mál þróuðust síðastliðið vor. Eins og þekkt er þá hóf utanríkismálanefnd umræðu um þetta mál án þess að klára það, þ.e. frumvarpið sem þessi skýrsla í rauninni leitast við að útskýra af hverju það var lagt fram. Strax eftir að mælt hafði verið fyrir þessu frumvarpi var ljóst að það var nokkuð umdeilt, í mjög afmörkuðum hópi a.m.k., og það var mikið reynt að spila á tilfinningar fólks, m.a. með hræðsluáróðri. Í þeirri umræðu var ýmislegt fullyrt, m.a. að að frumvarpinu samþykktu þá fælist í því stjórnarskrárbrot og jafnvel fullveldisafsal og ýmislegt annað var notað. Ég held að það sé nú rétt að muna það að EES-samningurinn er einmitt skýrt dæmi um hvernig við notum fullveldi þjóðarinnar til að auka réttindi bæði einstaklinga og lögaðila.

Það er þannig að þegar tveir eða fleiri gera með sér samning, ekki síst jafn umfangsmikinn og EES-samningurinn er, felast í því réttindi en einnig skyldur. Svo er einnig í þessu tilfelli. Þetta er ekkert ósvipað og í hjúskap, þá gefa aðilar talsvert eftir af sjálfsákvörðunarrétti sínu, ef svo má segja, en öðlast önnur og meiri réttindi og gæði í staðinn. Það er a.m.k. svona tilgangurinn með hjúskapnum. Svo er allur gangur á því hvernig það gengur. Ég held að langflestir Íslendingar geri sér mjög vel grein fyrir þessum mikla ávinningi sem EES-samningurinn hefur fært okkur. Þeir sem leiða kannski ekki hugann að því dagsdaglega njóta hans þó mjög oft og iðulega og kannski er skýrasta dæmið, þó að það sé svo sem ekkert stærsta dæmið, þessir reikisamningar fjarskiptafyrirtækja sem veita okkur möguleika á því að nota símtæki og netið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu án þess að vera logandi hrædd við svimandi háa reikninga þegar við komum heim úr fríum.

Það er líka rétt að halda því til haga að hugmyndin um fullveldið hefur breyst mjög mikið á síðustu 120 árum og í áranna rás höfum við Íslendingar í auknum mæli gengist undir fjölda alþjóðlegra skuldbindinga og tekið þátt í ýmiss konar alþjóðlegu samstarfi, ekki til að veikja fullveldið heldur til að styrkja það. Það má nefna t.d. alþjóðlega mannréttindasáttmála í því tilliti. Þetta höfum við gert af fúsum og frjálsum vilja af því að við höfum einmitt talið að þetta væri íbúum landsins og fyrirtækjum til mikilla hagsbóta og okkur er svo auðvitað líka í sjálfsvald sett, ef við kjósum svo, að segja okkur frá slíkum samningum.

EES-samningurinn er mjög gott dæmi um slíkt fjölþjóðlegt samstarf. Hann snýst um að íbúar og lögaðilar á þessu svæði njóti sameiginlegra réttinda á öllu svæðinu, líka Íslandi. Eða eins og segir á vef Stjórnarráðsins, sem er bara mjög skýrt, með leyfi:

„EES-samningurinn er eitt víðtækasta alþjóðasamstarf sem Ísland tekur þátt í. Segja má að EES-samningurinn sé brú milli Íslands og annarra EFTA-ríkja innan EES á innri markaði Evrópusambandsins. […] Með EES-samningnum er komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggist á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum (fjórþætta frelsið). EES-samningurinn byggist á svonefndu einsleitnimarkmiði en í því felst að hvarvetna innan EES eiga að gilda sömu reglur á þeim sviðum sem samningurinn nær yfir. Af þessu leiðir að þeim ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum ber að innleiða í löggjöf sína þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins.“

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á því hvaða tækifæri fólust í því fyrir fámenna þjóð að hafa aðgang að þessu fjölmenna svæði. Það hafa dæmin svo sannarlega sannað.

Umræðan um viðauka við þessa bókun 35, ef við getum orðað það svo, snýst einmitt um það að reglur séu þær sömu í öllum aðildarríkjum og liður í að tryggja þannig að markaðurinn sé raunverulega sameiginlegur, að Íslendingar og íslensk fyrirtæki njóti sambærilegra réttinda og aðrir íbúar og fyrirtæki í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Svo einfalt er það nú.

Þegar EES-samningurinn var í burðarliðnum fyrir rúmum 30 árum þá heyrðust vissulega háværar raddir um það að við værum að taka upp á einu bretti lög, reglur, dómaframkvæmd og fleira, og þar með værum við að ganga bæði nærri fullveldinu og stjórnskipun landsins. Jafnframt var því haldið fram að við værum að gangast undir erlent dómsvald. Þau mál leystust nú í samningaviðræðum á endanum með hinu svokallaða tveggja stoða fyrirkomulagi þar sem annars vegar er um að ræða stofnanir EFTA-ríkjanna, EFTA-stoðina, og hins vegar stofnanir Evrópusambandsins eða ESB, auk sameiginlegra stofnana sem kveðið er á um í EES-samningnum sjálfum. Á endanum þá samþykkti drjúgur meiri hluti þingheims þátttöku okkar í EES og ég held að flestir séu sammála um að þetta hafi verið okkur verulega til góðs.

Þessi viðbót við bókun 35 og þessi leið sem fyrrverandi hæstv. ráðherra og núverandi hæstv. ráðherra hafa talað fyrir hér, skýrt finnst mér, er liður í því að uppfylla eða efna samninginn. Íslendingum og EFTA-ríkjunum verður þá falið að setja lög sem myndu tryggja að þegar innleiddar EES-reglur hefðu forgang gagnvart landslögum ef þau stönguðust á. En Alþingi hefur hins vegar alltaf möguleika á því að ákveða annað. Það er enginn sem bindur hendur Alþingis með lagasetningu í dag til allrar framtíðar. Þessir viðaukar voru settir í lög árið 1992 í þeirri góðu trú að innlendir dómstólar túlkuðu lög á þann hátt að EES-reglur væru túlkaðar sem sérlög sem gengju framar almennum íslenskum lögum sem er í samræmi við meginreglur í lögskýringu. Þetta hefur kannski ekki að öllu leyti gengið eftir, a.m.k. ekki í seinni tíð, þar sem dómstólar hafa ekki talið heimilt að víkja til hliðar yngri innlendu lögum þegar þau stangast á við lagaákvæði sem byggja á EES-reglu. Hæstiréttur hefur, og Landsréttur reyndar líka minnir mig, hafnað því að leita eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum þrátt fyrir að deilt hafi verið um hvort lagaákvæði færu gegn ákvæðum EES-samningsins. Ég tel að það hefði nú kannski verið æskilegt þar sem tilvist samningsins er einfaldlega í hættu ef ekki leysist úr þessu máli og ekki fæst úr þessu skorið.

Það kemur fram í lítilli grein frá Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra, sem kom að samþykkt samningsins á sínum tíma, að mig minnir, að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hafi fyrir sex árum komið með þá ábendingu vegna dómaframkvæmdar að Ísland stæði ekki við þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar við innleiðingu á bókun 35. Allt síðan þá hefur málið verið til skoðunar og á borði ísraelskra stjórnvalda, leyfi ég mér að fullyrða, til að finna lausn á því. Þá hefur það líka legið fyrir, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að EFTA hafi verið með það í undirbúningi að höfða samningsbrotamál gagnvart Íslandi.

Það er sem sagt í þessum veruleika sem ríkisstjórnin síðasta vor lagði fram frumvarpið sem gekk undir nafninu bókun 35 og var sett fram til þess að styrkja og taka af allan vafa um hina upprunalegu ætlun með gerð samningsins og sameiginlegum skilningi Íslendinga og viðsemjenda okkar.

Frú forseti. Mér finnst gott að heyra að ráðherra hyggist í framhaldi af þessu koma með frumvarp, eins og hann orðaði það, sem býður upp á lausn á þessum efa og gefur okkur fullvissu um að samningnum sé ekki stefnt í voða eða a.m.k. að hann veikist ekki og í versta falli bíði skipbrot. Það hafa nefnilega ýmis stór orð verið látin falla um afleiðingar þess að samþykkja frumvarp fyrrverandi ráðherra og mér finnst skýrslan koma því ágætlega til skila að þau sjónarmið eiga ekki við rök að styðjast og það er hægt að víkja þeim röksemdum til hliðar, finnst mér.

Þetta er hins vegar flókið mál og það eru fæstir okkar þingmanna hér lögfræðingar og hvað þá sérfræðingar í stjórnskipunarrétti. Þess vegna hefur verið afskaplega gagnlegt að fá slíka sérfræðinga sem bæði gesti hjá utanríkismálanefnd síðasta vor og einnig að lesa fjölmargar greinar um málið. Mér finnst a.m.k. felast býsna notaleg fullvissa í því að flestir þeirra telja ekki aðeins að frumvarpsbreytingin sé hættulaus heldur segja sumir meira að segja að hún sé beinlínis nauðsynleg. Mér finnst þeir hafa hrakið efasemdaraddir og ágætt að halda því til haga að meðal þeirra sem kannski hæst hafa haft, ekkert endilega hér innan húss en úti í samfélaginu, er fólk sem er beinlínis á móti þátttöku okkar í EES-samningnum. Við skulum þá ræða það bara dálítið vel og lengi áður en við tækjum slíka afdrifaríka ákvörðun.

Viðbótin sem frumvarpið sem var lagt fram í vor gerir ráð fyrir var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

Hér er bara tekinn af allur vafi á því að við höfum alltaf síðasta orðið ef okkur hugnast svo. Það sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Ég ætla að lokum að leyfa mér að lesa upp nokkuð langa tilvitnun, hálfa blaðsíðu, eftir einn af okkar helsta sérfræðingi í stjórnskipunarrétti, Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómara Mannréttindadómstóls Evrópu og núverandi dómara við Landsrétt, vegna þess að hann er færari en ég að koma þessu frá sér á nokkuð skýru og hnitmiðuðu máli og skilur þetta auðvitað allt með augum lögfræðinnar, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi er stefnt að því lagfæra þennan ágalla á EES-lögunum í því skyni að fullnægja loks skuldbindingunni í bókun 35 og setja reglu sem tryggir skýrum og óskilyrtum lagaákvæðum, sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, forgang fram yfir aðrar reglur íslensks réttar.

Þessi regla um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og byggir á þeirri einföldu hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum. Hugmyndin er sú, svo skýrt sé með dæmi, að Hollendingur sem nýtir sér réttindi samkvæmt ESB og flytur til Spánar og stofnar þar fyrirtæki eigi að geta treyst því að reglur ESB gangi framar öðrum spænskum lögum rétt eins og Spánverji sem kemur sér fyrir í Hollandi í sömu erindagjörðum á að geta treyst á forgang þeirra í Hollandi. Meginatriði EES-samningsins er að Íslendingum eru tryggð þessi réttindi líka, eins og Ísland væri í ESB. Íslendingur sem flytur til Spánar á að geta treyst því að hann njóti réttinda samkvæmt ESB-reglum og mögulegar fullveldishugmyndir Spánverja standi því ekki í vegi. Á sama hátt á Spánverji sem til Íslands flytur að geta treyst því að fullveldisáhyggjur Íslendinga standi því ekki í vegi að hann njóti réttinda samkvæmt EES-reglum. Með EES-samningnum og bókun 35 gengust Íslendingar undir þá skuldbindingu að tryggja einmitt þetta.“