154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Já, það er dálítið fyndið að við sitjum hér og ræðum skýrslu um bókun 35. Það var einmitt lagt frumvarp fram á síðasta þingi, eins og hefur komið fram, og það rataði alla leið inn í utanríkismálanefnd þar sem ég sit. Þegar það var komið þangað þá held ég að menn hafi áttað sig á því að þetta væri sennilega heitasta kartaflan á svæðinu vegna þess að gestalistinn sem kom fram að beiðni nefndarmanna var svo langur að það hefði sennilega tekið heilt kjörtímabil að fá alla til að mæta, sérstaklega vegna þess að hver og einn vildi mikið tala. Á þessum gestalista voru nokkurn veginn allir stjórnmálamenn eða stjórnmálaskörungar alla vega síðastliðinna 30 ára vegna þess að menn vildu nú fara í umræðuna um það hvernig EES-samningurinn hefði verið gerður á sínum tíma. Því miður kláraðist þingið allt of snemma í vor og við náðum ekki að fá alla þessa gesti til að koma og hlusta á þá.

Fyrir okkur sem ekki eru lögfræðingar þá er þetta mál náttúrlega dálítið flókið og snúið og erfitt fyrir okkur að skilja. Fyrir mér var EES-samningurinn bara frábær leið. Árið 1994 var ég búinn að vera að vinna í hálft ár í Bretlandi og var með rosalega flottan stimpil í vegabréfunum mínu frá því sem ég gæti þýtt sem geimverudeild Breta, það stóð, með leyfi forseta, „Aliens Department“, við Íslendingar vorum sem sagt svona utanaðkomandi aðilar á þeim tímum. En eftir áramótin 1993/1994 þá mátti ég allt í einu vinna í Bretlandi án þess að vera með nokkur leyfi. Það er náttúrlega þetta sem fullt af Íslendingum hafa nýtt sér í gegnum árin, þennan samning. Við höfum líka notið góðs af því að fá hingað til lands vinnuafl sem heldur uppi okkar samfélagi, allt í gegnum þennan samning.

En það er nú einu sinni þannig með þessa blessuðu bókun að það virðist vera hægt að túlka það um hvað hún snýst á alla vegu, allt frá því að við séum bara að verða leppríki yfir í það að hér sé verið að gera tiltölulega litlar eða engar breytingar. Það er athyglisvert að fá þessa skýrslu í hendurnar vegna þess að hún rekur söguna um það af hverju þessi ákveðna bókun skiptir máli. Það er líka athyglisvert að skoða í þessu tilfelli að Norðmenn fóru aðeins aðra leið. Þeir settu þessi ákvæði bara beint inn í upprunalega samninginn sinn þannig að þeir þurftu ekki að framkvæma þessa sérstöku bókun. Ef við eigum að trúa sögum um leppríkið þá hljóta þeir hafa afsalað sér öllu fullveldi fyrir 30 árum síðan og hljóta þá að vera algerlega undir stjórn Evrópusambandsins og gera allt sem Evrópusambandið segir. En kannski er hluturinn aðeins öðruvísi heldur en sú frásögn.

Sumir benda jafnvel á að við eigum bara að hætta þessu EES-máli, hvort við eigum kannski bara að fara í okkar útgáfu af Brexit, eins og það var kallað. Ég veit ekki hvað íslensk útgáfa myndi heita en það hljómar örugglega bara mjög illa.

Sannleikurinn er sá að já, við fáum fullt af lögum og reglugerðum og tilskipunum sem við erum að fylgja. Í mínum huga hefur flest af því leitt af sér góða hluti. Ég sé t.d. ekki að við værum með jafn öflugt eftirlit í fjármálageiranum núna eftir hrun ef við hefðum ekki tekið upp allar tilskipanirnar tengdar fjármálunum sem við höfum gert. Það sama gildir um margt annað. Við erum einfaldlega allt of lítil þjóð til þess að geta tekið utan um öll þau stóru og flóknu verkefni sem þarf að setja reglur og tilskipanir um og þar af leiðandi er einfaldlega mikilvægt að við séum að gera það rétt. Það er einmitt um það sem þessi blessaða bókun snýst. Hún snýst um það að ef við erum að innleiða löggjöf frá Evrópusambandinu þá séum við að gera það rétt. Ef við gerum það vitlaust þá eigi sú regla sem við áttum að vera að innleiða að gilda. Þetta er ekki spurning um neitt framsal. Þetta er ekki spurning um að láta einhvern annan ráða. Við þurfum enn þá að innleiða þessi lög og þessar tilskipanir og gerum það. Við í utanríkismálanefnd fáum að sjá hverja einustu af þeim og það er alltaf gaman að lesa í gegnum listann og sjá hvað er verið að innleiða. Ég myndi segja að kannski svona 10% af þeim er eitthvað sem hefur virkilega mikil áhrif. Við þurfum að sjálfsögðu innleiða þetta rétt.

Hér hefur á undanförnum vikum verið mikið rætt um gullhúðun, þ.e. að bæta við þegar það eru að koma tilskipanir, setja eitthvað á. Reyndar vilja menn kannski frekar kalla það blýhúðun af því að það er meira íþyngjandi og ekki eins jákvætt og gull. En það er einfaldlega þannig að þarna er líka verið að horfa á það hvort við séum að innleiða hlutina rétt. Það er hægt að snúa því einhvern veginn upp í það að við séum að leyfa erlendum dómstólum og erlendum aðilum að setja lögin hérna, að við séum hætt að fylgja stjórnarskránni og ég veit ekki hvað og hvað. Fyrir þá sem hafa virkilega gaman af því að horfa á svona pólitískt þras sem snýst oftast ekki um það sem málið snýst um, eins og umræðan var kannski um þriðja orkupakkann, þá er alveg upplagt að fylgja þessu máli. En fyrir okkur sem höfum meiri áhyggjur af því að við séum að setja reglugerðirnar, tilskipanirnar, reglurnar og lögin rétt er þetta einfaldlega mál sem er kjörið tækifæri fyrir aðila til þess að teikna skrattann á vegginn endalaust, bara til að sýnast og vera með einhverja pólitíska stæla.