154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég á að vera alveg heiðarleg í nálgun þá finnst mér Miðflokkurinn — sem ég hef mjög gaman af að umgangast og tala við af því að það eru ákveðnir kontrastar á milli okkar um leið og það er mjög margt sem sameinar okkur, m.a. í efnahagsmálum, svo dæmi séu tekin, og aðhald í ríkisfjármálum, annað sem sameinar okkur hér. En ég verð að segja að stundum finnst mér þingmenn Miðflokksins tala undir ákveðinni dulkóðun þegar kemur að EES-samstarfinu og henda sér á mál, hvort sem það er þriðji orkupakkinn, sem er búið að sýna fram á að hafði ekki þessi rosalegu áhrif sem þeir nefndu og lýstu og sögðu í rauninni að myndi koma fyrir íslensku þjóðina, eða annað. Og það sama er núna. Ég segi þetta einfaldlega og ég er ekkert að fara að rekja það andsvar sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór í við hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann fór réttilega með það að Viðreisn — af því að Viðreisn hefur komið hreint fram, við munum verja þennan samning. Það er margt mjög gott í þessari bókun og í þessari skýrslu frá hæstv. ráðherra sem ég get verulega stutt. En það sem kom hins vegar alveg skýrt fram — af því að hæstv. ráðherra gerði vel þegar hann var að draga fram: Hvað vill Miðflokkurinn? Annars vegar segir hann að þetta stangist á við stjórnarskrána, ýjar að því alla vega. Er þá ekki bara hreint og beint réttast að segja það út að þetta stangist á við stjórnarskrána og þá ætli þeir bara að berjast gegn EES-samningnum, eða hvað er það sem Miðflokkurinn vill? Vill hann standa vörð um EES-samninginn? Vill hann gera það? Það eru mínar vangaveltur. Af því að ég hef ekki getað ráðið þessa dulkóðun sem átti sér stað hér áðan í andsvari formanns Miðflokksins þá þætti mér bara fínt ef hv. þm. Bergþór Ólafsson myndi koma hérna og skýra nákvæmlega hvað það er sem Miðflokkurinn vill. En það er alveg ljóst að við erum ekki á sama báti í þessum efnum. Við í Viðreisn viljum standa vörð um réttindi borgaranna og réttindi fyrirtækja, ekki síst lítilla og meðalstórra fyrirtækja, (Forseti hringir.) þegar kemur að EES-samningnum. Þetta er í grunninn það sem málið snýst um en ekki að þetta sé brot á stjórnarskránni. Það er fjarri því.