154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Best að svara fyrst, svo sé ég til hvaða tíma ég hef í lokin. Miðflokkurinn hefur ítrekað talað fyrir því að við ættum t.d. með miklu virkari hætti að nýta okkur þær heimildir sem eru beinlínis skrifaðar inn í samninginn. Þá er ég að vísa til að mynda til 102. gr. Annað, þó að það tengist ekki beint: Schengen-samstarfið, þar erum við ekki að nýta heimildir til þess að hafa betra betri stjórn á landamærunum sem eru beinlínis partur af því regluverki. Þannig að ég held að við eigum að byrja á því að nýta okkur þær heimildir sem við höfum og eru skrifaðar inn í samninginn og voru forsenda þess að við undirgengumst hann á sínum tíma. Þetta er svona stutta útgáfan af því hver fyrsta nálgun okkar í Miðflokknum er.

Hv. þingmaður hefur verið ráðherra í samanlagt sennilega sjö ár, er það ekki? Í tveimur … (ÞKG: Sex ár.) — Í sex ár. Af því að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á málum tengdum Evrópusambandinu og vill verja EES-samninginn með öllum tiltækum ráðum, hefur hv. þingmaður einhverja kenningu um það hvers vegna eftirlitsstofnun ESA lét innleiðinguna eins og hún hefur verið óátalda í 20 ár og beið í hartnær 30 ár eftir því að reiða til höggs, ef svo má segja, hvað varðar þá nálgun sem nú er verið að bregðast við? Man hv. þingmaður eftir því að í ráðherratíð hennar hafi verið einhverjar vangaveltur uppi um það við ríkisstjórnarborðið hvernig ætti að bregðast við athugasemdum ESA um þá upphaflega innleiðingu bókunar 35? Ég held ekki, en sjáum til.