154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir þessa annars ágætu ræðu, ekki rödd sem maður heyrir allt of ákveðið eða allt of mikið frá hennar flokki. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hún trúi því að þetta mál fari núna í gegnum þingið, klárist á vorþingi þrátt fyrir að það séu komnar fleiri efasemdarraddir en bara innan úr Sjálfstæðisflokknum. Við heyrðum áðan hjá hv. þm. Bjarna Jónssyni mjög skýra fyrirvara gagnvart þessari leið. Sér hún fram á að við klárum þetta mál núna á vorþingi? Um leið vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort hún sjái fram á það að í utanríkismálanefnd — ég undirstrika að við í Viðreisn munum gera allt til að hjálpa ríkisstjórninni við að koma þessu máli í gegn og breyta því sem þarf að breyta ef það verður til þess að styrkja málið — verði einhverjar breytingar eða mögulegar breytingar á málinu þegar það kemur fyrir nefndina með vorinu. Ég ætla bara rétt að vona að þessi umræða verði ekki til þess að hæstv. utanríkisráðherra snúist hugur og hann fari aðrar leiðir.