154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er ég þá að skilja hv. þingmann rétt að hún telji að þeir þingmenn innan stjórnarliðsins sem eru að móast við þessu muni fylgja utanríkisráðherra og væntanlega meiri hluta utanríkismálanefndar í þessu máli og styðji það þannig að við gerum það sem þetta mál snýst um, þ.e. að halda áfram að standa vörð um EES-samninginn, þennan mikilvæga milliríkjasamning sem við höfum gert? Um leið erum við að styðja og verja réttindi borgara og lítilla og meðalstórra fyrirtækja á EES-svæðinu og ekki síst íslenska. Sér hún fram á það að ríkisstjórnarmeirihlutinn muni fylgja þessu máli eftir eða þarf meiri hlutinn líka stuðning flokka eins og Viðreisnar? Við höfum lýst því yfir að við munum gera það sem þarf til þess að samningurinn standist og verði ekki veikari fyrir vikið eftir meðhöndlun ríkisstjórnarinnar.