154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[19:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er dálítið sérstök nálgun sem fram kemur hér með þessari skýrslugjöf og því verklagi sem hæstv. utanríkisráðherra teiknaði upp, að nú væri þessari skýrslu vísað til hv. utanríkismálanefndar. Og með einum eða öðrum hætti virtist hv. ráðherra ætla að bíða leiðsagnar varðandi það hvort tillögur um breytingar eða aðra nálgun kæmu frá nefndinni áður en málið, sem er á þingmálaskrá, verður lagt fram. Þá má eiginlega segja að ráðherra sé með einum eða öðrum hætti að senda sjálfum sér stoðsendingu, ef við notum körfuboltamál, setja sig í hlutverk Johns Paxons.

Samningurinn, eins og við þekkjum hann, EES-samningurinn, hefur sprungið út í umfangi og teygir anga sína miklu víðar heldur en lagt var upp með í byrjun. Ég held að það sé umræðunni ekki til bóta, eins og komið hefur fram hér hjá nokkrum sem hafa tekið þátt í umræðunni hingað til, að stilla málum þannig upp að þeir sem telji bókun 35 innleidda með fullnægjandi hætti eins og hún stendur núna séu í raun á móti EES-samningnum. Það er ódýr málfundaræfing og málinu ekki til gagns ef markmiðið er það sem hæstv. utanríkisráðherra segir að það sé, að skapa hér grundvöll umræðu til að hægt sé að byggja á annaðhvort mögulega annarri nálgun eða dýpri skilningi þingmanna á því hvernig best sé að nálgast þessi mál.

Eins og ég kom inn á hér í andsvari fyrr í umræðunni þá væri auðvitað fremst í röðinni hvað varðar mál sem ganga gegn hagsmunum Íslands að annaðhvort beita þeim reglum sem eru skrifaðar inn í samninginn, og vísa ég þá t.d. til 102 gr., eða þá að vakta hagsmuni Íslands með meira afgerandi hætti á fyrri stigum samstarfsins, sem virðist hafa tekist á köflum býsna illa þó að vítin til varnaðar ættu að vera orðin nægjanlega mörg á líftíma samningsins. Að mínu mati er staðan sú að að þeir sem haga málflutningi sínum með þessum hætti, að stilla upp málum þannig að þetta sé bara annaðhvort eða, séu í raun þeir sem mestan þrýsting setja á samstarfið. Það er svona nálgun sem setur málið í skotgrafirnar, ef svo má segja. Ég held að það blasi við að það er ekki vænlegt til árangurs ef meining hæstv. ráðherra er sú sem hann segir hana að vera. En ef ætlunin er bara að ráðherra sendi sjálfum sér stoðsendingu til að auðvelda framlagningu málsins hér á næstu vikum eða mánuðum þá er ekki víst að það verði til gagns. Ég get í öllu falli sagt að við þingmenn Miðflokksins munum taka til varna ef það á í blindni að innleiða þessar reglur og þessa bókun með miklu meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt er. Og af hverju segi ég með miklu meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt er? Núna er samningurinn 30 ára, rétt u.þ.b. Samningurinn var orðinn 20 ára gamall þegar fyrstu skilaboð bárust um athugasemdir í þá veru að bókun 35 væri ekki innleidd með fullnægjandi hætti. Mér hefur þótt margt benda til þess að þessar athugasemdir snúi meira að því hvernig póstar íslenskra fulltrúa á skrifstofu ESA í þessum efnum eru mannaðir heldur en efnislegar breytingar sem orðið hafa á túlkun eða framkvæmd regluverksins. Hæstv. ráðherra kom hér inn á það áðan að þetta sneri að breytingu á framkvæmd reglnanna. Auðvitað er það það sem skiptir máli. Það hlýtur að vera það sem skiptir máli hvernig þetta er framkvæmt, annað stenst enga skoðun. Það má ekki líta á það sem eitthvert aukaatriði, að reyna að koma þessu máli undir radarinn og afgreiða með einföldum hætti bara á þeim forsendum að þetta snúist nú bara um framkvæmdina, það sé ekki verið að breyta neinu í raun. Það er auðvitað ekki þannig. Þá væri ekki verið að þessu.

Það er auðvitað með miklum ólíkindum það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi hér áðan og varðar það með hvaða hætti stjórnvöld hafa verið treg til að veita upplýsingar um afstöðu, sína eigin afstöðu, sömu ríkisstjórnar, eins samsettrar á síðasta kjörtímabili, hvað varðar sjónarmið í þessum efnum gagnvart ESA. Hvað veldur? Hvað hefur breyst? Hvað af rökunum sem þá voru til staðar hefur úrelst? Þrátt fyrir að það hafi verið mælt fyrir málinu á síðasta þingi og það rætt töluvert þá höfum við ekki enn þá fengið svör um það hver af þeim rökum sem sett voru fram á síðasta kjörtímabili hafa úrelst. Þessu verður ríkisstjórnin að svara og það er auðvitað alveg fráleitt að þetta sé ekki partur af þessari skýrslu sem hér er lögð fram. Það er nóg pláss, það hefði alveg verið hægt að hafa hana 18 síður í staðinn fyrir 16 og bara leiða þetta út og útskýra fyrir okkur þingmönnunum almennu hvers vegna afstaða ríkisstjórnarinnar hefur snúist um 180°, því að það er auðvitað það sem hefur gerst. Hvað af rökunum sem lögð voru fram af hinum ágæta utanríkisráðherra síðasta kjörtímabils, sem nú gengur í salinn, og skrifaði að ég held hátt í 30 blaðsíðna greinargerð til ESA þar sem var farið býsna vel og af festu yfir þau sjónarmið sem skiptu máli og varða íslenska hagsmuni — hver af þeim rökum hafa úrelst? Það verður að svara okkur því. Og ég vil bara hrósa hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, (Umhvrh.: Heyr, heyr.) — heyr, heyr — núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fyrir þessa fínu vinnu sína á síðasta kjörtímabili. Ef hæstv. ráðherra kemur í ræðu á eftir þá gæti hann kannski útskýrt hver af rökum þess tíma hafa úrelst.

Það hefur með einum eða öðrum hætti verið látið að því liggja að allt ósætti, allur mismunandi skilningur á regluverkinu, falli bara í ljúfa löð verði bókunin innleidd með þeim hætti sem nú stefnir í að verði lagt til öðru sinni. Auðvitað verður það ekki þannig. Það verður tekist á fyrir dómstólum hér eftir sem hingað til um mismunandi túlkun og mismunandi hagsmuni. Það mun í engu breytast. Eini munurinn er sá að eins og kemur fram í regluverkinu eins og var lagt fram í fyrra þá ganga innleiddu EES-reglurnar framar íslenskum rétti, stangist reglurnar á. Það er bara það sem stendur beinum orðum í þessu einnar greinar máli fyrir utan gildistökuákvæðið. Ég held að það þurfi ekkert að velkjast í vafa um að ágreiningur verður hér eftir sem hingað til og menn munu eflaust finna meira fyrir skyldum sínum heldur en réttindum, sem allt snýst þó um. Það verður að halda því til haga í ljósi þess sem ég nefndi áðan, að það hafi tekið ESA 20 ár að ræskja sig og 30 ár að reiða til höggs, að það hljóta að koma til sögunnar einhvers lags tómlætissjónarmið í þessum efnum. Hvers vegna tók þetta svona langan tíma? Hvað hefur breyst? Hvað kallar á þessi viðbrögð? Það er ekkert sem blasir við sem augljós skýring annað en mannabreytingar. Það er ekki gott ef mál sem þessi eru keyrð áfram af einhverju marki tilviljanakenndum hætti á grundvelli þess hver situr í tilteknum skrifborðsstól í Brussel hverju sinni.

En bara af því að þessi ræða styttist — ég verð að biðja forseta að setja mig aftur í ræðu því að ég held að ég byrji ekki á næsta efnisatriði mínu fyrir þær sekúndur sem ég á eftir, en bara til að ramma þetta inn: Það er sérstakt að ráðherra sendi með þessum hætti stoðsendingu á sjálfan sig til að auðvelda framlagningu að því er virðist síðar á þessu þingi. En þá er líka mikilvægt að málið, til að sýna að einhver meining hafi verið á bak við það, verði hanterað með þeim hætti í hv. utanríkismálanefnd að eitthvert vit sé í. Við höfum séð það svo ótal oft að þegar mál eru send inn til nefndar milli 2. og 3. umræðu, svo dæmi sé tekið, og rifin þaðan út aftur eftir nokkrar mínútur án álits, þá er engin meining á bak við það að þingnefnd fjalli um mál. Þannig að ég vona að hv. utanríkismálanefnd fari í ígrundaða djúpa vinnu, leyfi öllum sjónarmiðum að koma fram og kalli eftir þeim upplýsingum er varða það hvað hefur breyst frá því á síðasta kjörtímabili og hvað af þeim rökum sem þá giltu hafa úrelst.