154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[19:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma fyrir 30 árum var það forsenda fyrir honum að Ísland gæti hafnað innleiðingu á regluverki sem gengi gegn hagsmunum Íslands eða ætti ekki við. Það er nú fátt nefnt í dag annað en að við sluppum við járnbrautarregluverkið. En það er svo margt annað sem hefði verið ástæða til að koma okkur undan með sanngjörnum rökum og skynsamlegum. Síðan sjáum við núna undanfarin misseri og ár regluverk, útþenslu samningsins. Nú eru allt í einu umhverfismálin með þeim íþyngjandi æfingum sem þeim fylgja, sem eru svo augljóslega þvert á íslenska hagsmuni í ljósi þess hversu vel við höfum staðið okkur. Við fáum beinlínis það í hausinn samkvæmt evrópska regluverkinu hvað við höfum staðið okkur vel á fyrri stigum. Það er í engu tekið tillit til þess. Þá eru þeir auðvitað að taka til hliðar það að ráðherrar hafi á fyrri stigum gefið eftir réttindi sem við áttum þar sem var þó að einhverju marki tekið tillit til þess. En það er nú annað mál.

Það er nýlega búið að samþykkja hér regluverk, var gert núna í desember, sem snýr að því að skattleggja flug og skipaflutninga sérstaklega, regluverk sem er algjörlega galið að Ísland sé hluti af og undirorpið, algjörlega galið, regluverk sem gengur út á það að troða fólki sem vill ferðast með flugvélum í járnbrautarlestir. Það er bara ekki hægt hér á landi. Það er ekki hægt. Við verðum að hafa sjálfstraust til þess annaðhvort tímanlega á fyrri stigum í ferlinu eins að það er teiknað upp að segja: Nei, þetta á ekki við á Íslandi, við munum ekki innleiða þetta. Eða ef við klúðrum því að hafa sjálfstraust til að segja: Heyrðu, þessi staða er komin upp en hún bara stangast svo illa á við íslenska hagsmuni að við eigum ekki annarra kosta völ en að vísa þessu máli heim í hérað, ef svo má segja, með vísan í 102. gr. EES-samningsins. Það er beinlínis mekanismi, verkfæri sem er skrifað inn í samninginn og gengur út á það að við eigum þarna ákveðna neyðarvörn, sem við virðumst aldrei treysta okkur til að nota. Ég held að það sé miklu frekar að stjórnvöld treysti sér ekki til að nota það heldur en að þau raunverulega séu þeirrar skoðunar að ekki hafi verið tilefni til, því að um leið og þú gengst við því að skoða það ertu að segja: Heyrðu, við klúðruðum einhverju hérna á fyrri stigum. Og það virðist vera of stór biti að kyngja.

Ég hef áhyggjur af því af hæstv. utanríkisráðherra nálgist þetta sem tæknilegt mál, þetta snúist bara um framkvæmd og enga raunverulega breytingu og verði allt eins og þetta átti að vera í byrjun. Ef það væri raunin væri ekkert staðið í þessu, af því að það er svo augljóst að af þessu hlýst pólitískur kostnaður. Í fyrra var það varaformaður Sjálfstæðisflokksins og nú er það formaður Sjálfstæðisflokksins sem leggur til þessa breyttu innleiðingu á bókun 35. Ég efast stórlega um að hátt hlutfall kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafi talið það vera vegferð sem forysta þess flokks væri líkleg til að fara í við síðustu kosningar. Það vantar eitthvert sjálfstraust til að setja fótinn niður og segja: Nei, þetta er bara í lagi eins og þetta hefur verið í 30 ár. Ef ESA vill fara í málarekstur vegna þess hvernig staðið hefur verið að málum þá bara gera þeir það. Það er bara partur af regluverkinu sömuleiðis.

Ég vona að meðferð hv. utanríkismálanefndar á málinu verði með þeim hætti að það verði tekinn góður tími í að skoða þetta. Það verði ígrundað þannig að það verði raunverulega kallað fram hvað breyttist frá því á síðasta kjörtímabili, hvaða rök, sem þá voru talin fullnægjandi til að ýta því sjónarmiði til hliðar og frá að það þyrfti að breyta innleiðingu bókunar 35, hafi úrelst frá því á síðasta kjörtímabili. Enn hefur þeirri spurningu hefur ekki verið svarað og meðan þeirri spurningu hefur ekki verið svarað finnst mér varla hægt að ræða þetta af neinu viti.