154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svar hér. Það skiptir auðvitað miklu máli að um þetta frumvarp ríki mikil sátt því að við erum að tala um í mörgum tilfellum aleigu fólks sem það hefur safnað sér upp á jafnvel tugum ára. Það er erfitt ef einhverjir hópar verða ósáttir af því að þeim var nú mörgum gert að yfirgefa heimili sitt eða að þeir sem nýttu húsnæðið var gert að yfirgefa það, þannig að fólk hefur ekki getað nýtt það og ekkert útlit er fyrir að fólk geti nýtt það húsnæði sem það á í Grindavík, við vitum ekki hversu lengi. Það er yfirvofandi nýr atburður sem gerir stöðuna enn verri þannig að það er mikilvægt að um þetta frumvarp ríki mikil sátt. En ég upplifi það ekki eftir að hafa séð að það hafi borist á fjórða hundrað umsagnir um þetta að það sé um þetta mikil sátt. Það er greinilega einhver hópur sem er verulega óánægður. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um hvort hún viti hversu margar íbúðir í Grindavík falla undir þetta frumvarp og fást bættar og hve margar íbúðir það eru sem ekki fást bættar í Grindavík.