154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil ljúka þessari umræðu á því að þakka fyrir umræður hér í dag og þær ræður sem hér hafa verið fluttar og þau sjónarmið. Það eru nokkur atriði sem mig langar sérstaklega að nefna. Fyrst aðeins um það hvers konar verkefni þetta er. Líkt og hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson kom inn á er það marglaga og stórt í sniðum. Það einskorðast ekki við þetta frumvarp sem við ræðum hér, sem er þó það stærsta hingað til. Það er samfélagslegt fyrst og fremst fyrir grindvískt samfélag en líka fyrir okkur sem samfélag. Það er efnahagslegt og við verðum að hafa skynsemi að leiðarljósi þegar við mátum það saman hvernig umgjörðin er, hvernig útfærslan er, hver áhrifin eru og afleiðingar. Ég hef séð það mjög skýrt í þessari vinnu að það skiptir gríðarlegu máli. Útfærslan hefði getað verið önnur með sömu niðurstöðu fyrir Grindvíkinga, ekki endilega betri en þó með mun töluvert neikvæðari áhrifum til að mynda á ríkissjóð eða töluvert neikvæðari áhrifum á það verkefni okkar að ná niður verðbólgu og vöxtum. Þannig að það skiptir máli að huga að þessum þríþættu markmiðum sem við höfum haft að leiðarljósi.

Við höfum lagt á það áherslu að gera þetta eins skynsamlega og kostur er og eins sanngjarnt og kostur er og huga sérstaklega að jafnræði aðila. Þegar ég segi að við horfum til þess að gera þetta eins sanngjarnt og kostur er þá er það ekki yfirlýsing um að þessi staða sé sanngjörn. Hún er einfaldlega mjög ósanngjörn fyrir fólkið í Grindavík, þ.e. sú staða sem upp er komin, að þurfa að flýja heimili sín, geta ekki verið þar, mega ekki vera þar og vita ekkert hvort og þá hvenær hægt er að snúa til baka. Það er gríðarlega ósanngjörn staða og erfið og fólk hefur orðið fyrir tjóni. Það hefur orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, tilfinningalegu tjóni og ég ætla ekki að láta eins og allt það tjón sé hægt að bæta. Það er einfaldlega ekki hægt að bæta allt það tjón sem fólk hefur orðið fyrir. En það sem við erum að gera hér, að ná utan um það verkefni að gera fjölskyldum kleift að koma sér varanlega eða a.m.k. til millilangs eða lengri tíma þaki yfir höfuðið og búa sér til nýjan griðastað á nýjum stað, þar sem hver fjölskylda þarf að eiga sína friðhelgi, er markmiðið með þessu frumvarpi.

Hér voru aðeins nefndar þær íbúðir sem falla utan mengis eða falla utan frumvarpsins. Þær eru um 250. Þar af eru leigjendur stærstur hluti og það þýðir að staða þess fólks er þannig að það þarf að finna sér nýtt heimili sem það leigir eða, ef það hefur áhuga eða tök eða getu til, að kaupa þegar þar að kemur. Við erum ekki með þessu frumvarpi að kaupa eignir lögaðila og undir það falla þá þeir lögaðilar sem eru í atvinnurekstri við að leigja fólki íbúðir. Atvinnurekstur er utan þessa mengis og atvinnurekstur verður að mínu viti að vera utan þess því það er önnur ákvörðun, sjálfstæð ákvörðun sem þarf að hugsa mjög vel og til enda hvernig eigi að mæta.

Nú erum við með hér í þinginu frumvarp um tekjufallsstyrki þar sem við bætum það tekjufall sem fyrirtæki hafa orðið fyrir, upp að vissu marki, upp að ákveðnum starfsmannafjölda, veitum fyrirtækjum súrefni. Verkefnið núna er að finna út úr því hvað er raunhæft og gerlegt fyrir ákveðinn atvinnurekstur sem getur verið áfram í Grindavík þótt fólk búi ekki þar, því það er auðvitað misjafnt eftir því hver atvinnureksturinn er. Það er verkefni sem við erum í og ég veit að atvinnurekendur eru óþreyjufullir og vilja fá fyrirsjáanleika og eitthvert frekara plan og skýr svör. En þetta sem við erum að fjalla um hér snýst um íbúðir í eigu einstaklinga.

Svo er auðvitað hluti fólks sem bjó í Grindavík, og hluti þess þá sem leigjendur, sem hefur farið til síns heimalands eftir allt sem gengið hefur á. Hluti þessa fólks leigir á nýjum stað og þegar við horfum til þessara þátta þá eru ekki margar íbúðir sem standa utan mengis. Ég veit að nefndin mun skoða þau tilvik og kanna hvort nefndin eða þingið vilji gera einhverjar breytingar á því en það er mikilvægt að halda í þessi meginmarkmið og þau leiðarljós sem við höfum haft í allri þessari vinnu.

Hér var aðeins komið inn á búseturétt. Við tókum ákvörðun um það í ljósi tímans, og fólk bíður eftir því að þetta frumvarp verði samþykkt sem lög þannig að það geti tekið ákvarðanir út frá því, að leysa það í sameiningu, þ.e. nefndin fái það hlutverk að leysa það og fjármála- og efnahagsráðuneytið verður að sjálfsögðu til aðstoðar og til þjónustu reiðubúið í því verkefni. Það snýst um hvernig við getum gert þeim einstaklingum sem eiga búseturétt í eignum kleift að flytja þann rétt með sér, rétt eins og fólkið sem er að flytja eigið fé með sér á nýjan stað. Hvernig getum við gert þeim kleift að flytja þann rétt sem þau eiga þar, vonandi þá inn í annan búseturétt annars staðar eða tekið aðrar ákvarðanir? Það er mikilvægt að við lendum því.

Það eru fjölmörg önnur atriði sem hér var komið inn á og eins og ég fór yfir í minni framsöguræðu þá kom auðvitað mikill fjöldi athugasemda en þær voru ekki 316 útgáfur af umsögnum. Þetta voru ákveðin atriði sem helst var fjallað um og er reifað vel í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu, í samráðskaflanum, eðli þeirra umsagna og svo með hvaða hætti er brugðist við þeim. Stundum er það til þess að lýsa betur eða fylla inn í skýringar eða taka af vafa eða túlka nánar. Í öðrum tilfellum erum við að bregðast við þeim með því að breyta frumvarpinu og færa það inn en í öðrum tilfellum erum við að skýra betur út hvers vegna sú leið var ekki farin.

Mér finnst skipta máli að við hugsum líka til þess, við sem hér erum með lýðræðislegt umboð frá þjóðinni og með löggjafarvald og berum ábyrgð, að huga að því sem gæti gerst í framhaldinu. Hér er um að ræða aðgerð sem við höfum aldrei farið í áður. Vísindamenn segja okkur að við séum komin inn í tímabil sem líklega eða mögulega mun vara mjög lengi og við vitum ekki í hvaða röð náttúran vaknar og lætur til sín taka yfir landið. Þá þurfum við að búa okkur undir að það kunni að verða fleiri áföll, mögulega minni og mögulega stærri. Þess vegna er þetta ákveðin prófraun, prófsteinn á það að okkur farnist að ramma þetta inn með sem skynsamlegustum hætti þannig að það standist alla skoðun, bæði aftur í tímann gagnvart öðrum þeim sem hafa orðið fyrir áfalli, þótt ólíkt sé, en líka fram í tímann, vegna þess að við verðum að hafa burði og getu til að bregðast við slíkum áföllum ef þau verða. Framtíðin er mjög óljós í þeim efnum og okkur ber skylda til að vanda mjög til verka og búa okkur undir þá óvissu í framtíðinni.

Að lokum vona ég að sem flest geti nýtt sér það sem felst í þessu frumvarpi. Ég veit að fólk er í mjög misjafnri stöðu, líkt og það var áður en þessir atburðir hófust. Fólk er misjafnlega sett fjárhagslega. Fólk er búið að vera misjafnlega lengi á fasteignamarkaði. Fólk skuldar mjög mismikið. Sumir hafa getað haldið atvinnu áfram í gegnum þennan tíma, aðrir ekki, þannig að það er ekki bara fjárhagsleg óvissa og áföll í kringum fasteign heldur getur það líka átt við störf. Ég veit að það er enginn hér inni sem lætur eins og allir íbúar í Grindavík séu í sömu stöðu eða að þetta frumvarp leysi öll þeirra mál. Við verðum einfaldlega að vera ærleg í því og ég segi þess vegna aftur að þetta frumvarp er ekki að fara að bæta allt það tjón sem þetta fólk hefur orðið fyrir. Allt það tjón verður einfaldlega ekki allt bætt. En markmiðin eru skýr, þau skipta máli og ég veit að þessi svör sem hér er að finna eru mikill léttir fyrir stóran hóp fólks.

Rétt í lokin vil ég aftur þakka samráðsnefndinni með fulltrúum allra flokka. Það var gott starf. Það var gagnlegt fyrir mig, fyrir sérfræðinga fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fyrir ráðgjafa okkar sem aðstoða okkur og vonandi fyrir þingmennina sem í nefndinni sátu. Það var sannarlega tíma vel varið að undirbyggja málið með þessum hætti og mun líklega flýta fyrir þinglegri meðferð hér. Það vill þannig til að stór hluti þeirrar nefndar situr í efnahags- og viðskiptanefnd, ekki af því að þau eru flest þingmenn Suðurkjördæmis en þannig er það bara. Það mun líka gagnast.

Ég vil í lokin þakka starfsfólki fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lagði sig allt fram við að vinna þetta mál eins og best væri á kosið og gerði það framúrskarandi vel og sömuleiðis þakka þeim ráðgjöfum sem aðstoðuðu okkur, sérstaklega varðandi útfærslu og samskipti við fjármálastofnanir. Það skiptir máli, þótt ekki sé farið í það í þessu frumvarpi, en sú útfærsla og aðkoma fjármálastofnana að þessari heildarlausn er auðvitað risastór þáttur málsins. Ég leyfi mér líka að þakka bönkunum fyrir þeirra lausnamiðuðu nálgun í þessu verkefni sem mér finnst sýna að þetta er verkefni sem við þurfum öll að koma að. Við erum hér að taka ákvörðun um að 99% þjóðarinnar ætli að standa með eina prósentinu sem verður fyrir áfalli og ég vona að lífeyrissjóðir landsins, sem eru lánveitendur á þessu svæði, sjái sér fært að taka þátt í þessari heildarlausn líka.

Mér finnst það sem komið hefur fram hér og í aðdraganda þessarar vinnu og í þessari vinnu allri saman sýna að við ætlum okkur að leysa þetta saman og mér finnst mikill bragur á því vegna þess að verkefnið er einfaldlega þess eðlis að það skiptir máli fyrir heildarútkomu og áferð á málinu að við gerum það þannig, því að þetta, eins og ég segi, er verkefni sem við höfum ekki áður staðið frammi fyrir. Það þarf að standast skoðun. Það þarf að mæta þessum þörfum og þessum markmiðum sem við settum okkur. Ég óska hv. efnahags- og viðskiptanefnd og nefndarmönnum þar alls hins besta í vinnunni fram undan og hér eftir sem hingað til verður fjármála- og efnahagsráðuneytið til þjónustu reiðubúið ef við getum orðið að frekara liði.