154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Nú er það svo að ráðherra getur ekki tjáð sig um einstök mál og þar af leiðandi hef ég bara þær upplýsingar úr fjölmiðlum eins og hv. þingmaður hefur væntanlega einnig. Það er samt sem áður ljóst að við svona flókna lögregluaðgerð eins og framkvæmd var á Akureyri núna í upphafi árs hefði það gert þá aðgerð auðveldari og að ég tel hefði verið hægt að bregðast hugsanlega fyrr við ef lögreglan hefði haft þær heimildir sem við erum hér að óska eftir að lögregla hafi samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt til.

Ég vil ítreka það að löggæsla í dag snýr að miklu leyti að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingagjafar, (Forseti hringir.) upplýsingaöflunar og greiningar upplýsinga og það er bagalegt að lögreglan hér á landi sé ekki með sambærilegar heimildir og embættin hafa í öðrum löndum til að vinna mál sem eru (Forseti hringir.) þvert á landamæri.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hæstv. ráðherra á að ræðutíminn er styttur í eina mínútu.)