154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég segi það alveg hiklaust að þetta samræmist mínum hugmyndum um réttarríkið og ég verð að segja það, eins og hefur komið hér fram, að það er alveg nauðsynlegt að geta fylgst með einstaklingi sem er þekktur fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, hryðjuverkastarfsemi og öðru slíku og sem kemur til landsins til þess einfaldlega að fylgjast með því að viðkomandi sé ekki að skipuleggja einhverja glæpastarfsemi eða hryðjuverkastarfsemi hér á Íslandi. Við eigum að hafa það í huga, hv. þingmaður, að þetta er í opnu rými. Við höfum ekki haft þessar heimildir og það er einfaldlega algjörlega nauðsynlegt að við áttum okkur á því, eins og ég segi enn og aftur, að þetta er orðinn veruleikinn. Við erum komin miklu nær því sem er að gerast á Norðurlöndunum og í Evrópu og staðan í þessum löndum er með þeim hætti að hún er víti til varnaðar. Ég segi það bara hiklaust, hv. þingmaður, að ég tel þetta styrkja þær heimildir og rannsóknir sem við þurfum að geta viðhaft gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi. En af því að Píratar hafa haft mjög miklar áhyggjur af þessu aukna eftirliti, að það geti verið misnotað og þess háttar, þá vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt að lögreglan er alls ekki á móti eftirliti og vill fá sem mest og best eftirlit, þannig að það sé alveg á hreinu. Ég held ég hafi svarað hv. þingmanni hvað þetta varðar. Ég tel þetta algjörlega samræmast því að við höldum uppi lögum og reglu í þessu landi og auk þess að við stöndum vörð um þá ríku almannahagsmuni sem felast í því að vernda borgarana og tryggja öryggi þeirra. Ég held að það sé kjarni málsins sem rammar þetta inn.