154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

sjúklingatrygging.

718. mál
[16:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu, frumvarpi til heildarlaga. Gildandi lög eru frá árinu 2001 og er þar kveðið á um endurskoðun sem hingað til hafði ekki farið fram. Ýmislegt hefur auðvitað breyst á þessum liðlega aldarfjórðungi. Til að mynda höfum við hér á Alþingi sett bráðabirgðaákvæði til þess að ná yfir tilteknar bólusetningar vegna kringumstæðna sem við þekkjum, Covid-19, með breytingalögum nr. 156/2020, og vegna bólusetninga við apabólu, með breytingalögum nr. 114/2022. Við þá vinnu, og fleiri atriði mætti telja, má segja að komið hafi í ljós nauðsyn þess að ráðast í gagngera skoðun, heildarendurskoðun sem við köllum, endurskoðun laganna, og réðst heilbrigðisráðherra, sá er hér stendur, í það að skipa starfshóp til þessa verks, í þessa vinnu, sem var skipaður fulltrúum þeirra stofnana sem málið helst snertir. En auðvitað er þetta mjög víðtækt mál þannig að í þeim starfshópi, sem tryggði síðan víðtækara samráð, sátu fulltrúar frá Sjúkratryggingum og embætti landlæknis og ráðuneyti og með þeirri samsetningu tryggt að ná sem víðtækustu samráði út frá því og til þeirra er málið varðar.

Þar sem sú vinna hefur skilað sér í umtalsverðum breytingum, skulum við segja, þá er hér lagt til frumvarp til nýrra heildarlaga. Markmiðið hér er auðvitað að auka tryggingavernd sjúklinga og einfalda þeim sem þurfa að sækja bætur vegna tjóns með því að bæta hér til að mynda málsmeðferð, skýra frekar reglur og auka jafnræði. Tryggingin nær til alls heilbrigðiskerfisins, það er nýmæli, og allrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi og nær til þeirra einstaklinga sem verða fyrir tjóni vegna heilbrigðisþjónustu. Það er mjög skýrt, þannig að það er fjölmargt hér til bóta og markmiðið auðvitað að auka hér tryggingaverndina og gera fólki með skýrum og beinum hætti auðveldara um vik að sækja þær bætur sem fólk á rétt á. Ég ætla að rekja svona kannski þessi helstu atriði sem ég tala hér um og þær breytingar og sjónarmið að baki þeim.

Hæstv. forseti. Hér í frumvarpinu er lagt til m.a. að bætur séu greiddar þeim sem gangast undir bólusetningu á Íslandi með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem af því hlýst. Samkvæmt núgildandi lögum nær sjúklingatrygging ekki til tjóns vegna eiginleika lyfja nema þegar um er að ræða klínískar lyfjarannsóknir í ákveðnum tilvikum. Í faraldri Covid-19 fór fram athugun á skaðabótarétti þeirra einstaklinga sem létu bólusetja sig við sjúkdómnum ef tjón kæmi upp í kjölfar bólusetningar. Það þótti ljóst að skaðabótaréttur þeirra sem fengju aukaverkanir af völdum bóluefna var ekki nægilega tryggður í íslenskum rétti. Var því sett bráðabirgðaákvæði við lög um sjúklingatryggingu þar sem réttur vegna bólusetningar vegna Covid-19 var tryggður og ákvæði til bráðabirgða vegna bólusetningar við apabólu var svo sett síðar sem ég vísaði hér til í þeim breytingalögum sem þar áttu við, 2020 vegna Covid-19 og 2022 vegna apabólu.

Með frumvarpinu hér er jafnframt gerð sú breyting að foreldrar, eða eftir atvikum forsjárforeldrar, eigi rétt til bóta vegna andláts fósturs á meðgöngu eða barns undir 18 ára aldri vegna sjúklingatryggingaatviks. Þá er í frumvarpinu lagt til að hámarksfjárhæð vegna tjóns verði hækkuð í þeim tilgangi að auðvelda tjónþola að sækja rétt sinn en núverandi verklag er með þeim hætti að tjónþola er bent á möguleikann á því að leita til ríkisins ef hámarki bóta samkvæmt lögunum hefur verið náð til að fá tjón sitt fullbætt.

Umfangsmesta breytingin samkvæmt frumvarpinu má segja að sé fólgin í því að afnema þá aðgreiningu sem gerð hefur verið eftir því hvar í heilbrigðisþjónustu tjónsatvik á sér stað. Hafi atvik orðið hjá opinberum aðila heyrir málið undir Sjúkratryggingar Íslands en að öðrum kosti heyrir málið undir vátryggingafélag þess aðila þar sem atvikið átti sér stað. Vátryggingarskylda hvílir því á þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa utan stofnana og skal beina kröfum um bætur vegna tjóns sem verður hjá þeim til vátryggingafélags hins bótaskylda. Staða tjónþola er hins vegar gjörólík eftir því hvort tjón sem bótaskylt er samkvæmt lögunum er tryggt hjá vátryggingafélagi eða heyrir undir Sjúkratryggingar. Í þeim tilgangi að bæta réttarstöðu tjónþola er lagt til hér að afnema þann greinarmun sem nú er gerður og málsmeðferð alfarið færð á hendur einnar stjórnsýslustofnunar til einföldunar fyrir þá sem verða fyrir tjóni, tjónþola. Það er lykilatriði, virðulegi forseti, í þessu.

Til að fjármagna þessa kerfisbreytingu með frumvarpi þessu er sú leið farin og til einföldunar að viðkomandi stofnanir og aðilar sem hingað til hafa greitt iðgjald til vátryggingafélags greiði þess í stað iðgjald til Sjúkratrygginga sem er ætlað að mæta þeim kostnaði sem mun fyrirsjáanlega aukast hjá stofnuninni.

Með frumvarpinu er einnig ætlunin að skýra heimild Sjúkratrygginga til að afla gagna frá þeim sem nauðsynlegt er og að heimila stofnuninni og embætti landlæknis að miðla gögnum og upplýsingum sín á milli þegar báðar stofnanir hafa mál til meðferðar af sama tilefni. Markmiðið er að samnýta vinnu ríkisins, t.d. við gagnaöflun, og koma í veg fyrir tvíverknað stofnana.

Þá er lagt til í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, að tjónþoli þurfi að ljúka málsmeðferð á stjórnsýslustigi, og rétt að taka hér fram að áður en hann getur höfðað mál fyrir dómstólum þar sem dómstólaleiðin er mun takmarkaðri fyrir tjónþola, með þessari breytingu er rétt að taka fram að ef greiðsla Sjúkratrygginga nær hámarki samkvæmt lögunum, og hér er verið að hækka hámarksbætur, virðulegur forseti, rétt að taka það fram jafnframt, og hér er verið að hækka hámarksbætur um 50%, sem hefur auðvitað áhrif á þetta, að þess vegna þegar greiðsla Sjúkratrygginga nær hámarki samkvæmt lögunum þá þarf ekki að fá úrskurð úrskurðarnefndar áður en málinu er vísað til dómstóla, enda er þá ekki ágreiningur um afgreiðslu stofnunarinnar.

Helstu rökin fyrir þessari breytingu eru þau að eins og staðan er samkvæmt núgildandi lögum geta tjónþolar stefnt stjórnvaldinu, Sjúkratryggingum, fyrir dómstóla á hvaða stigi málsmeðferðar sem er. Þegar mál er rekið fyrir dómstólum hefur stjórnvaldið, sem samkvæmt gildandi lögum er falið að meta og ákvarða bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu, ekki lengur forræði á málsmeðferðinni. Þess í stað verður til kostnaður stjórnvaldsins við að verjast kröfum fyrir dómi. Þessi staða veldur auknum kostnaði fyrir tjónþola, Sjúkratryggingar og dómskerfið og er frumvarpinu ætlað að koma í veg fyrir það.

Hér eru fleiri atriði sem alveg er vert, virðulegi forseti, að koma inn á og kannski geri ég hér í lokin tilraun til að draga helst saman þau atriði sem reynt er jafnframt að gera í greinargerð með þessu frumvarpi til glöggvunar og útskýringa, til viðbótar því sem ég hef hér farið yfir varðandi til hverra frumvarpið nær, gildissvið og um bólusetningar og um að hámarksfjárhæð verði hér hækkuð og það að falla frá því að aðgreina tjónsatvik eftir því hvort atvik eigi sér stað í opinberri stofnun eða hjá einkaaðila er hér lagt til að skýra heimild sjúkratryggingastofnunarinnar til að afla gagna með nákvæmari hætti og heimila stofnunum og embætti landlæknis að deila gögnum. Þetta er mikilvægt og til einföldunar er lagt til að færa í lög heimild sjúkratryggingastofnunarinnar til að fella tryggingu úr gildi samhliða niðurfellingu heimildar til reksturs.

Þá er hér lagt til að sjúkratryggingastofnunin skuli endurkrefja heilbrigðisstarfsmann þegar greiddar eru bætur í þeim tilvikum sem heilbrigðisstarfsmaður er ótryggður. Hér er lagt til að lögfesta málsmeðferð sjúkratryggingastofnunarinnar með nákvæmari hætti sem er nánar kveðið á um í 10. gr. og vert er að benda á, og þá er það alveg skýrt að mál sem heyrir undir sjúkratryggingastofnunina og ég fór hér yfir, virðulegi forseti, verður ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur úrskurðað í málinu nema í þeim málum þar sem sjúkratryggingastofnunin hefur greitt hámarksbætur samkvæmt lögum. Þá er lagt til að sektarákvæði verði fellt úr gildi þar sem því hefur ekki verið beitt frá setningu gildandi laga og ekki skýrt hvernig ákvæðinu skal beitt raunverulega í framkvæmd.

Þetta eru svona samandregið helstu atriði hér, virðulegi forseti. Kostnaðarmatið á frumvarpinu liggur fyrst og fremst í því umfangi sem mögulega kemur til greina varðandi bætur vegna bólusetninga og er áætlað að það geti orðið viðbótarkostnaður hér fyrir Sjúkratryggingar, um 10 millj. kr.

Ég hef nú gert hér held ég ágætlega, virðulegi forseti, grein fyrir meginatriðum, komið inn á þau nánast öll og leyfi mér hér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari 1. umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umræðu.