154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

varðveisla íslenskra danslistaverka.

688. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Magnús Árni Skjöld Magnússon) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa skemmtilegu spurningu. Já, þetta er spurning sem ég hef einmitt velt upp til þeirra sem best þekkja þessi málefni. Mér skilst að jú, það sé hægt að varðveita og skrásetja dans með þrívíddartækni en til þess þarf dansarinn að vera með búnað á sér. Það gerist því í rauninni ekki á sýningu sem slíkri heldur myndi það gerast við einhvern annan viðburð. Það er vissulega hægt og hugsanlega getur tæknin þróast með þeim hætti að hægt sé að búa til einhvers konar þrívíddarlíkön út frá bara myndum af dansinum með aðstoð gervigreindar eða eitthvað slíkt. Það er auðvitað fjöldamargt sem er í pípunum þar og verður sjálfsagt æ auðveldara þegar fram í sækir að varðveita þessa áhrifaríku listgrein. Eins og staðan er í dag þá eru danshöfundar að varðveita ýmislegt í tengslum við danssýningar sínar. Ég þekki t.d. til þess að það er einn ákveðinn íslenskur danshöfundur sem hefur mjög sérstaka aðferð, sem byggir einmitt á stafrænni tækni, til að varðveita sína dansa og er í rauninni í fararbroddi á heimsvísu en það er í rauninni bara hluti af hennar listsköpun og ekki líklegt að aðrir taki það upp. Hvað varðar geymd eða kennslu á milli kynslóða, eða hvað við eigum að kalla það, þá er auðvitað mjög öflug danssena á Íslandi og þar læra yngri dansarar af þeim sem á undan hafa farið.