154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

lækkun lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar.

552. mál
[17:47]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson fór svo vel yfir í máli sínu áðan. Hér erum við að tala um að lækka lóðarleigu á svæði sem er í mikilli uppbyggingu eins og staðan er núna en á sér þá forsögu að hafa verið varnarsvæði og ríkið tekið það yfir við brotthvarf hersins. Mér finnst þetta vera sanngirnismál. Það kemur fram í greinargerðinni um hvers konar upphæðir er að ræða. Til framtíðar geta þær náttúrlega orðið töluvert miklar og ég held að því fyrr sem farið yrði svona sanngirnisleiðréttingu, því betra.

Ég verð að nefna það hér og velti því fyrir mér að í upphafi komi sú hugmynd hvort þetta standist hreinlega lög, bara út frá jafnréttissjónarmiði hvað varðar lóðarleigu. Því yrði náttúrlega þannig fyrir komið ef það yrði gengið í þetta mál og það klárað að slíkri mögulegri óvissu yrði eytt.

Það sem mér er efst í huga einnig er ekki bara að þetta mál verði klárað heldur líka sú staðreynd að það hefur farið fram umtalsvert góð vinna á Ásbrú þar sem eignir hafa verið teknar í gegn og þeim komið í not. Fasteignaverð þarna hefur hækkað verulega og þjónusta er einnig að aukast. Háskólasvæðið hefur orðið vinsælla með hverju árinu sem líður. Sú staðreynd að íbúar sem kaupa eignir á Ásbrú skuli vera í þeirri stöðu að greiða 2%, eins og hér kemur fram, fær mann til að velta fyrir sér hvernig þeim er gerð grein fyrir því þegar eignir eru keyptar. Til lengri tíma litið eru þetta auðvitað verulegar fjárhæðir, eru náttúrlega verulegar fjárhæðir í þeirri stöðu sem fólki er í. Þeir sem hafa verið að kaupa á Ásbrú, þó að það sé að breytast, hafa kannski verið eignaminna fólk sem hefur verið að fá fasteignir á góðu verði. Þó að fasteignaverð hafi sannarlega hækkað og þarna sé verið að taka eignir í notkun sem eru umtalsvert dýrari heldur en þegar sú vegferð hófst þá er þetta líka svæði sem félagslega séð hefur þurft að ná sér svolítið upp þó að við horfum fram á betri tíma hvað það varðar.

Ég ætla svo sem ekki að fara í löngu máli yfir tillöguna, enda fór flutningsmaður ágætlega yfir hana, en bara lýsa því yfir að ég er henni samþykkur. Ég er alveg sannfærður um að ef allir leggjast á eitt þá ætti ríkið að geta leiðrétt fasteignagjöld í samræmi við það sem gerist og gengur hjá Reykjanesbæ.

Ég furða mig svolítið á því svari sem flutningsmaður fékk frá fjármálaráðuneytinu. Ég átti erfitt með að skilja það almennilega. Ég velti fyrir mér hvort ríkið sé að horfa til einhvers konar samræmis varðandi svipaða þætti annars staðar á landinu. Það væri áhugavert að vita og fá svona einhverja heildarsýn hvað það varðar, hvort það sé eitthvað í lögum sem banni að þessi leið sé farin. Ég efast stórlega um það. Það kæmi mér verulega á óvart. Ég bjóst kannski við innihaldsríkara svari frá ráðuneytinu en það kann að koma á seinni stigum þegar þessi vegferð heldur áfram.

Ég held að það væri til mikils sóma fyrir Alþingi að samþykkja þessa tillögu og hvet auðvitað bara ráðuneytið og þá sem fara með málið þar að skoða þetta ofan í kjölinn. Best væri auðvitað að það þyrfti ekki atbeina Alþingis, að það yrði bara farið í það að skoða þessi mál og þau leidd til lykta.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp, virðulegi forseti, er til að taka heils hugar undir málið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að aðrir þingmenn í kjördæminu, þó að þeir séu ekki á þessari þingsályktunartillögu, og aðrir þingmenn hér á þingi hljóti að sjá að hér er um sanngirnismál að ræða sem ætti ekki að vera mikið mál að leiðrétta.